SÁÁ
5. apríl 2011 / 09:50

Gagnagrunnurinn á Vogi

 

Nær allir Íslendingar sem eiga við alvarlega vímuefnafíkn að stríða koma fyrr eða síðar á Sjúkrahúsið Vog. Þar hefur safnast í gagnagrunn gríðarlega miklar og verðmætar upplýsingar um vímuefnavanda íslensku þjóðarinnar undanfarin 30 ár. Gagnagrunnurinn á Vogi gefur okkur Íslendingum einstakt tækifæri til að fylgjast með þróun mála. Hægt er að lesa út frá algengistölum hvort vandi vegna einstakra vímuefna er að vaxa eða minnka og út frá nýgengistölum hvert stefnir í framtíðinni. Grunnurinn gefur okkur mikið upplýsingaforskot á aðrar þjóðir og tækifæri til rannsókna.

 

Í gagnagrunninum á Vogi eru 60.524  komur skráðar og nákvæmar vímuefnagreiningar eru til staðar fyrir hverja innritun frá 1984. Hver skráning er skráð á kennitölu og hafa skráningarnar verið samkeyrðar við þjóðskrá og horfinna skrá.

 

Í árslok 2009 höfðu 20.579 einstaklingar (5903 konur og 14.676 karlar) innritast á Sjúkrahúsið Vog. 9,8 % núlifandi karla og 4,1 % núlifandi kvenna sem eru 15 ára og eldri hafa komið á Vog. 10.274 einstaklingar hafa einungis einu sinni innritast eða 50%. 16.059 hafa verið 3 sinnum eða sjaldnar í meðferð eða tæp 78%. Aðeins 599 núlifandi Íslendingar hafa verið 10 sinnum eða oftar á Vogi eða 2,9% sjúklinga.

 

Úr þessum umfangsmikla gagnagrunni má lesa að meðferðin SÁÁ dugar vel. Úr tölunum má líka lesa það sem ekki er síður mikilvægt að allir sjúklingar eru þar velkomnir, líka þeir sem hafa verið oft í meðferð. Engin vímuefnafíkill er þannig staddur að SÁÁ vilji ekki við honum taka.

 

Sjá ársskýrslu SÁÁ 2007-2010

 

 

Til baka...