SÁÁ

Upplýsingar um SÁÁ

 

Takk fyrir þann áhuga sem þú sýnir starfi okkar

 

SÁÁ eru samtök áhugafólks um áfengis- og vímuefnavandann og eru orðin þrítug. Aðalmarkmið samtakanna er að sjá til þess að alkóhólistar, vímuefnafíklar og aðstandendur þeirra eigi ávalt völ á bestu fáanlegri sjúkrameðferð og endurhæfingu.

 

Samtökin vinna einnig að forvörnum. Opinberir aðilar kosta um tvo þriðju af starfsemi samtakanna, en einn þriðji er fjármagnaður af samtökunum sjálfum. Þó að starfsemin beinist fyrst og fremst að alkóhólistum, vímuefnafíklum og aðstandendum þeirra njóta miklu fleiri þjónustunnar beint eða óbeint. Erfitt er að gera sér grein fyrir hversu margir hafa samband við starfsmenn samtakanna til að leita eftir upplýsingum eða þjónustu á hverju ári, en ekki er ólíklegt að þeir séu um 10.000.

 

Samtökin byggja meðferðarstarf sitt á tiltækri vísindalegri þekkingu í læknisfræði, sálarfræði og félagsvísindum og binda sig því ekki við neina eina meðferðarhugmynd. Vaxandi vísindaleg þekking um fíknisjúkdóma og meðferð þeirra leiðir sífellt af sér nýjungar í þjónustunni. þannig hafa samtökin byggt upp alhliða meðferð sem kemur til móts við flesta einstaklinga og undirhópa í sjúklingahópnum sem til samtakanna leita og býður meðferð sem stenst strangar faglegar kröfur.

 

Meðferðin fer ýmist fram á göngudeild eða á sjúkrastofnun. Hún er sniðin sérstaklega að þörfum kvenna, unglinga, endurkomukarla, karla eldri en 55 ára eða að þörfum þeirra sem eru minna veikir eða betur félagslega staddir. Á heimasíðu samtakanna er að finna margvíslegar upplýsingar um starfsemina, eðli sjúkdómsins og þau úrræði sem þeim sem í vanda eru staddir standa til boða.

 

Ef þú heldur að þú eða einhver sem þér þykir vænt um hafi áfengisvanda talaðu þá við ráðgjafana okkar hjá SÁÁ. Þeir munu taka þér vel og svara spurningum þínum. Þú getur pantað þér viðtal eða haft samband í gegnum síma 530-7600. Þeir sem drekka of mikið áfengi stofna ekki bara eigin lífi og heilsu í voða. Drykkjan  kemur niður á ástvinum, vinnufélögum og vinum. Stjórnlaus  drykkja veldur vinum og ættingjum miklum áhyggjum og börnin eru þau undir miklu álagi. Viltu vita hvort áfengisneyslan er í lagi?

 

Góðu fréttirnar eru þær að flestir sem viðurkenna að þeir eiga við áfengisvandmál að stríða og leita sér aðstoðar hjá SÁÁ ná góðum árangri. Meðferðin getur verið mjög mismunandi og fer eftir því hversu alvarlegur vandinn er, allt frá einu viðtali í viðamikla meðferð.

 

Hjá SÁÁ er líka mikilvægur stuðningur fyrir aðstandendur alkóhólista og vímuefnafíkla.

 

2006 lét SÁÁ framkvæma fyrir sig viðhorfskönnun meðal almennings

 

Af þessari könnun má ráða að SÁÁ nýtur margfalt meira trausts meðal almennings en aðrar meðferðastöðvar á Íslandi, en 77% sögðust treysta SÁÁ best í meðferðarmálum á meðan næsti aðili var með  6% af þeim sem tóku afstöðu. 

 

Einnig virðist almenningur á einu máli um mikilvægi starfsemi SÁÁ  og þau verk sem unnin hafa verið í meðferðarmálum á þeim 29 árum sem samtökin hafa starfað (95% segja starfið mjög mikilvægt eða mikilvægt).

 

Athygli vekur hversu margir svarenda þekkja einhvern sem á við áfengis- eða  vímuefnavanda að etja, en 86% svarenda svaraði játandi þeirri spurningu. Þetta sýnir óumdeilanlega hversu stórt heilbrigðisvandamál er við að eiga og fara þessi svör saman við þá staðreynd að um 9,6 % allra núlifandi íslenskra karla  sem eru eldri en 15 ára hafa komið inn á Vog. Nýmiðlun framkvæmdi könnunina fyrir SÁÁ og fengust 3006 svör.  Hinn mikli fjöldi svara gefur sterka vísbendingu um að þessi könnun gefi rétta mynd af afstöðu þjóðarinnar til þess sem spurt var um.

 

Um leið og við þökkum þér fyrir þátttökuna í könnuninni hvetjum við þig til að skoða heimasíðu okkar eða hringja til okkar í síma 530-7600 eftir frekari upplýsingum. Einnig er hægt að skrá sig sem félaga á vefnum.