SÁÁ
Viðtal: Stefanía Þóra Jónsdóttir / 
19. mars 2012 / 09:44

Fordómar í garð kvenna meiri

Stefanía Þóra Jónsdóttir

Stefanía, ráðgjafi á göngudeild, tekur á móti konum úr kvennameðferð sem fá eftirfylgni í heilt ár á göngudeildinni.

Aðeins rétt um fjórðungur þeirra sem leita til SÁÁ eru konur. Samt er vandi kvenna ekki minni og samtökin eru meðvituð um að ná þarf til stórs hóps kvenna sem á í vanda vegna áfengis- og vímuefnasýki. Meðal annars er rekin sértök kvennameðferð og þar byggja konurnar sig upp aftur en oft eru meiri fordómar í garð vímuefnasjúkra kvenna en karla.

 

Kvennameðferð SÁÁ var hrundið af stað árið 1995 og hefur skilað gríðarlega góðum árangri. Meðferðin er algjörlega sniðin að þörfum kvenna sem eiga við áfengis- og vímuefnavanda að stríða.

Undirbúningur fyrir meðferðina hófst árið 1994 þegar ljóst var að mikil þörf væri á sérstöku meðferðarúrræði fyrir konur. Stefanía Þóra Jónsdóttir, ráðgjafi á göngudeild, segir að til þess hafi legið margar ástæður.

 

„Fordómar í garð vímuefnasjúkra kvenna eru mun meiri en í garð karla og þær fá oft lítinn stuðning að heiman,“ segir Stefanía. „Megináherslan er því lögð á að byggja upp sjálfstraust kvennanna og skapa samhentan hóp sem þjappar sér saman í meðferðinni og áfram þegar meðferð lýkur. Þá er líka mikilvægt að virkja þátttöku aðstandenda, sérstaklega eiginmanna og kærasta, þannig að þeir viti hverju þeir eigi von á eftir að konan lýkur meðferð.“

Konur í neyslu oft félagslega einangraðar

Kvennameðferðin hefst inni á Vogi, þar sem konurnar dvelja í tíu til fimmtán daga, og heldur áfram á Vík þar sem þær dveljast í fjórar vikur. Eftir dvölina á Vík tekur við hópmeðferð á göngudeildunum í Reykjavík og á Akureyri. Þar er unnið áfram að markmiðunum sem á undan eru nefnd, en vaxandi áhersla lögð á að konurnar verði virkar félagslega og hópstarfið sé skemmtilegt og upplífgandi.

 

Á tímabili dvöldust eingöngu konur á Vík, en nýting hússins var ekki nægjanlega góð, þannig að nú eru karlmenn eldri en 55 ára líka sendir í eftirmeðferð á Vík.

 

„Það hefur komið ágætlega út og virðist henta báðum hópum vel,“ segir Stefanía.

„Í kvennameðferðinni eru markmiðin mjög skýr og felast ekki síst í að rjúfa einangrun kvennanna. Þær eru oft félagslega einangraðar í neyslunni og eiga á hættu að einangrast enn meira eftir meðferð. Mikið er lagt upp úr því að skapa vinsamlegt umhverfi og aðstæður sem gera þeim kleift að vinna úr alvarlegum áföllum sem þær hafa orðið fyrir á lífsleiðinni. Þá er þeim kennt að takast á við löngun í vímuefni og bregðast við fíkninni.“

 

Miklir fordómar kvenna í eigin garð

Stefanía er ein fjögurra ráðgjafa á göngudeildinni í Von, en eftirmeðferð á göngudeild stendur í heilt ár.

„Konunum er skipt í hópa og vinnan heldur áfram þar sem frá var horfið á Vík. Vandamálin sem konurnar eru að glíma við eru margvísleg og við gerum það sem í okkar valdi stendur til að styrkja þær og hvetja til dáða. Margar eru í erfiðri stöðu, félagslega og fjárhagslega, og kvíða framtíðinni. Við hjálpum þeim að tjá sig um það sem veldur kvíða og vanlíðan, bendum á lausnir og svo má ekki gleyma lækningamætti hópsins sjálfs, því konurnar finna styrk hver í annarri.“

 

Hörður J. Oddfríðarson, einnig ráðgjafi á göngudeild, er komin til okkar og segir aðspurður að 6.500 konur hafi farið gegnum kvennameðferð frá upphafi. Hlutfall kvenna sem leiti sér aðstoðar hjá SÁÁ hafi verið kringum 25% undanfarin ár, en fari hækkandi. Sérstaklega hafi yngri konum fjölgað, en eldri konur hafi meiri fordóma gagnvart eigin neyslu og séu ragari við að leita sér hjálpar.

 

Aldrei hitt karlmann sem komst ekki í meðferð vegna barnanna

„Það er hægt að spyrja sig af hverju færri konur koma í meðferð en karlar, því það ekkert sem bendir til þess að vandi kvenna sé minni. Ein af ástæðunum er líklega aðstaða kvennanna. Á þeim sextán árum sem ég hef unnið hér hef ég aldrei hitt karlmann sem kemst ekki í meðferð vegna barnanna sinna.

 

 

 

 

 

 

Við erum stundum að aðstoða konur í langan tíma á göngudeild af því þær komast ekki frá börnunum. Konur hafa líka annarskonar ábyrgðartilfinningu en karlar og fordómar þeirra í eigin garð eru meiri. Þær eru meira í felum með neysluna og seinni til að leita sér hjálpar. Það er líka hugsanleg ástæða þess að utan frá séð virðast konur ekki eiga við jafn mikinn vímuefnavanda að etja og karlmenn, þó ekkert renni stoðum undir það. Sem betur fer hefur þetta breyst og konum sem leita sér hjálpar fjölgar jafnt og þétt.

 

Kvennameðferðin alltaf í þróun

Hörður og Stefanía segja tölur benda til þess að árangur kvenna eftir kvennameðferð sé betri en kvenna sem nýti sér önnur úrræði.

 

„Annað úrræði fyrir konur er til dæmis göngudeildarmeðferð, en það er í raun ekki sambærilegt, þar sem innlögn er alltaf mun árangursríkari,“ segir Hörður.

 

Stefanía segir kvennameðferðina í stöðugri þróun og markmiðið sé alltaf að gera enn betur.

„Konur sem fóru í kvennameðferð fyrir nokkrum árum myndu ekki þekkja allt sem meðferðin býður upp á í dag. Tímarnir breytast og meðferð þarf alltaf að vera í takt við tímann þó grunnurinn sé sá sami. Verkefnin sem konurnar glíma við eru margvísleg og í sumum tilfellum önnur en fyrir áratug. Nýir starfsmenn koma svo með nýjungar inn í meðferðina, að ógleymdum konunum sjálfum.“

 

Gaman að sjá konurnar styrkjast og blómstra

Kvennameðferðir eru þekktar erlendis, meðal annars í Skandinavíu, Bretlandi og Bandaríkjunum, og á Betty Ford og Hazelden hefur verið boðið upp á

markvissa kvennameðferð í áratugi. Þó ýmislegt í kvennameðferð SÁÁ sé sótt til annarra landa er meðferðin þó fyrst og fremst löguð að íslenskum aðstæðum.

 

„Við vonum að meiri umræða um alkóhólisma leiði til minni fordóma. Það eykur líkur á að fólk gangist fyrr við eigin alkóhólisma og leiti sér hjálpar. Konur eiga oft langa sögu hjá heimilislækni eða öðrum læknum vegna ýmissa kvilla sem hefði mátt leysa miklu fyrr ef þær hefðu komið strax í meðferð. Þær tengja ekki endilega þunglyndi og kvíða misnotkun áfengis eða vímuefna og þegja jafnvel um neysluna í lengstu lög. Þær eru því oft illa farnar þegar þær koma loksins í meðferð og þurfa sumar að byggja sig upp frá grunni. Við gerum allt sem í okkar valdi stendur til að hjálpa þeim að öðlast sjálfsvirðingu og byggja upp sjálfstraust og styrk. Konurnar eiga mikið hrós skilið því þær sýna ótrúlegan kjark. Það er frábært að fylgjast með hvernig þær styrkjast og breytast og blómstra sem aldrei fyrr.“

 

 

 

Texti: Edda Jóhannsdóttir

Myndir: Gunnar Gunnarson

 

sjá SÁÁ blaðið, 3.tbl 2011

Til baka...