Fara í efni

Samþykktir SÁÁ

SAMÞYKKTIR SÁÁ

1. grein Nafn og heimili
Nafn samtakanna er Samtök áhugafólks um áfengis- og vímuefnavandann, skammstafað SÁÁ.
Starfssvæði samtakanna er landið allt.
Heimili samtakanna og varnarþing er í Reykjavík.

2. grein Tilgangur
Tilgangur SÁÁ er:
1. Að vinna gegn vanþekkingu og fordómum á fíknvanda og því sem honum tengist og hafa áhrif á almenningsálitið með fræðslu um eðli fíknsjúkdóma.
2. Að starfrækja afeitrunar- og endurhæfingarmeðferð fyrir fólk með fíknsjúkdóma.
3. Að starfrækja göngudeild fyrir fólk með fíknsjúkdóma og aðstandendur þeirra.
4. Að starfrækja fræðslu og meðferð fyrir aðstandendur fólks með fíknsjúkdóma, þ.m.t. börn.
5. Að vinna að fræðslu og fyrirbyggjandi aðgerðum sem og endurhæfingu skjólstæðinga sinna.
6. Að styrkja til sérmenntunar starfsfólk til ofangreindrar starfsemi, svo og til annarra starfa málefninu viðkomandi.
7. Að skipuleggja sjálfboðaliðastörf og afla fjár til reksturs SÁÁ.
8. Að afla og koma á framfæri til almennings upplýsingum um eðli og umfang þess vanda sem stafar af notkun áfengis og annarra vímuefna.
9. Að leita samvinnu við og styrkja þá starfsemi, sem berst raunhæft við fíknsjúkdóma og afleiðingar þeirra.
10. Að tryggja fólki með fíknsjúkdóma og aðstandendum þeirra læknishjálp og meðferð í heilbrigðis- og almannatryggingakerfinu án þess að sú sjúkdómsgreining leiði til skerðingar.
11. Að vinna að fræðslu og menntun fagstétta sem starfa á sviði heilbrigðisvísinda að lækningu, umönnun og meðferð fólks með fíknsjúkdóma og aðstandenda þeirra.
12. Að tryggja að í heilbrigðisþjónustu SÁÁ starfi fagfólk úr ýmsum greinum heilbrigðisþjónustunnar. Starfsfólkið skal veita þeim sem leita til SÁÁ vegna fíknsjúkdóma, heilbrigðisþjónustu í hæsta gæðaflokki.
13. Að tryggja að í heilbrigðisþjónustu SÁÁ verði rekið og stundað öflugt vísindastarf. Rannsakendur á vegum SÁÁ skulu leitast við að stunda og eiga aðild að vísinda- og rannsóknarstarfi í samstarfi, á innlendum og alþjóðlegum vettvangi.
14. Að vinna að samstarfi við framhaldsskóla og háskóla um menntun á sviðum heilbrigðisvísinda. Á aðalfundi SÁÁ skal gera grein fyrir samstarfi og rannsóknum, ásamt áætlunum um vísindarannsóknir.
Tilgangi sínum hyggst SÁÁ ná með því að sameina leika sem lærða til baráttu, sem byggð er á þekkingu. SÁÁ
sem slíkt er ekki bindindisfélag og vill forðast boð og bönn og hverskonar sleggjudóma.

3. grein Félagsaðild
Félagar í SÁÁ geta verið einstaklingar, félög, sjóðir og sjálfseignarstofnanir.
Hver sem óskar inngöngu í SÁÁ, skal koma á framfæri inntökubeiðni á skrifstofu SÁÁ. Telst viðkomandi félagi í SÁÁ 7 sólahringum eftir að inntökubeiðni berst.
Á fundum SÁÁ hefur hver félagi eitt atkvæði, hvort heldur hann er einstaklingur eða lögaðili.
Félagar skulu greiða félagsgjöld. Félagsgjöld eru ákveðin á aðalfundi SÁÁ.
Félagsmenn ber ekki persónulega ábyrgð á skuldum og öðrum skuldbindingum félagsins nema með félagsgjaldi sínu.
Enginn getur farið með atkvæðisrétt annars félaga samkvæmt umboði.
Heiðursfélagar eru gjaldfrjálsir. Framkvæmdastjórn setur reglur um kjör heiðursfélaga.

4. grein Tekjur SÁÁ
Tekjur og framlög til SÁÁ eru:
1. Félagsgjöld.
2. Opinber framlög og styrkir.
3. Framlög einstaklinga og lögaðila.
4. Fé sem aflað er með sérstökum fjáröflunaraðgerðum.
5. Seld þjónusta
Reikningsár SÁÁ er almanaksárið.

5. grein Aðalfundur SÁÁ
Aðalfund SÁÁ skal halda fyrir 1. júlí ár hvert og skal hann boðaður með minnst viku fyrirvara með auglýsingu í a.m.k. tveimur ótengdum netmiðlum, tveimur ótengdum útvarpsstöðvum og samfélagsmiðlum SÁÁ. Aðalfundur er lögmætur ef rétt er til hans boðað.
Rétt til að sækja aðalfund SÁÁ og greiða þar atkvæði eiga þeir félagar einir sem greitt hafa félagsgjöld fyrir upphaf aðalfundar. Heiðursfélagar hafa atkvæðisrétt á aðalfundi.
Heimilt er að halda aðalfund með rafrænum hætti. Ef halda á aðalfund með rafrænum hætti skal þess getið í fundarboði.
Dagskrá aðalfundar:
1. Skýrsla stjórnar um starfsemi SÁÁ á liðnu starfsári
2. Staðfesting endurskoðaðs ársreiknings
3. Kosningar;
    a. aðalstjórn í samræmi við 6.grein
    b. varastjórn í samræmi við 6.grein
    c. félagslegir skoðunarmenn reikninga í samræmi við 11.grein
4. Lögð fram til afgreiðslu, tillaga um félagsgjald
5. Breytingar á samþykktum SÁÁ ef fyrir liggja tillögur um þær
6. Önnur mál.

6. grein Aðalstjórn SÁÁ
Aðalstjórn SÁÁ skipa 48 einstaklingar. Kjörtími stjórnarfólks eru þrjú ár og skulu 16 kjörin á hverjum aðalfundi. Þá skal kjósa, til eins árs, á hverjum aðalfundi, 7 einstaklinga í varastjórn. Endur kosning stjórnarfólks er heimil.
Skuldlausir félagar í SÁÁ eru kjörgengir í aðalstjórn SÁÁ. Hið sama á við um forsvarsfólk lögaðila sem aðild eiga. Missi einstaklingar kjörgengi sitt eða segi sig frá stjórnarstörfum, ber að kjósa í þeirra stað, út kjörtíma, á næsta aðalfundi SÁÁ.

7.grein Verkefni aðalstjórnar
Aðalstjórn fer með æðsta vald SÁÁ milli aðalfunda.
Aðalstjórn fundar í beinu framhaldi af aðalfundi SÁÁ og boðar fundarstjóri á aðalfundi til þess fundar og stýrir honum.

Á þeim fundi skal aðalstjórn;

  1. Kjósa framkvæmdastjórn úr sínum röðum í samræmi við 8.grein.
  2. Ákveða þóknun fyrir setu í framkvæmdastjórn.
  3. Kjósa 3 einstaklinga úr framkvæmdastjórn til að gera starfsamning við formann SÁÁ. Laun formanns SÁÁ skulu vera í samræmi við laun framkvæmdastjóra SÁÁ og annarra helstu stjórnenda SÁÁ.
  4. Kjósa nefnd til að fjalla um mögulegar breytingar á samþykktum SÁÁ og skýra hlutverk hennar. Nefndin skal skila skýrslu til aðalstjórnar tímanlega fyrir aðalfund.
  5. Staðfesta siðareglur SÁÁ, sem stjórnarfólk gengst undir með samþykki og undirskrift.
  6. Staðfesta fundarsköp aðalstjórnar.

Fundi í aðalstjórn skal halda eftir þörfum en þó eigi sjaldnar en þrisvar milli aðalfunda.  Aðalstjórn hefur eftirlit með störfum framkvæmdastjórnar, sem gefur aðalstjórn reglulega skýrslu um verk sín milli aðalfunda.
Formaður SÁÁ kemur fram fyrir hönd SÁÁ gagnvart stjórnvöldum, fjölmiðlum og almenningi. Formanni er heimilt að tilnefna með sér annað talsfólk í mismunandi málaflokkum, sér til fulltingis.
Tólf einstaklingar úr aðalstjórn geta krafist fundar aðalstjórnar SÁÁ. Skal sú krafa vera skrifleg til formanns og tekið fram hvaða mál fundurinn eigi að fjalla um. Skal þess getið í fundarboði og skulu þau mál vera fyrstu mál á dagskrá fundarins. Formanni ber að bregðast við áskorun um fundarboð innan tveggja sólarhringa frá því hún berst.
Til fundar aðalstjórnar skal boða rafrænt með viku fyrirvara. Heimilt er að halda aðalstjórnarfundi rafrænt að hluta eða öllu. Geta skal þess í fundarboði ef þannig háttar.

8.grein Framkvæmdastjórn
Í framkvæmdastjórn sitja 9 einstaklingar. Aðalstjórn kýs árlega 3 einstaklinga til þriggja ára, þannig að kosinn er formaður ásamt 2 meðstjórnendum eitt árið, varaformaður ásamt 2 meðstjórnendum næsta ár og ritari ásamt 2 meðstjórnendum það þriðja. Formaður, varaformaður og ritari geta mest setið þrjú tímabil í röð í sama embætti. Framkvæmdastjórnarfundir teljast löglegir og ályktunarhæfir, ef 5 einstaklingar úr framkvæmdastjórn mæta. Forfallist einstaklingur í framkvæmdastjórn eða missir kjörgengi, skal boða til aðalstjórnarfundar, sem kýs nýjan einstakling í framkvæmdastjórn út kjörtímann.
Ef formaður hættir störfum tekur varaformaður við. Ef staða varaformanns breytist eða hann hættir, tekur ritari við sem varaformaður. Ef staða ritara breytist eða hann hættir, kýs aðalstjórn nýjan einstakling í hans stað.
Þeir sem sitja í framkvæmdastjórn skulu vera fullgildir félagsmenn í SÁÁ og ekki starfsfólk SÁÁ, að undanskildum formanni SÁÁ.
Framkvæmdastjórn mótar stefnu SÁÁ og hefur eftirlit með rekstri SÁÁ.
Framkvæmdastjórn gefur aðalstjórn reglubundið skýrslu um störf sín og skal leggja fyrir hana til umræðu og ákvarðanatöku allar fyrirætlanir um meiriháttar fjárfestingu, breytingu á rekstri stofnana eða stofnsetningu nýrra stofnana, svo og ákvarðanatöku um stefnumótun í samskiptum við opinbera aðila ef þurfa þykir.
Framkvæmdastjórnin skipuleggur og stjórnar fjáröflun SÁÁ, hún skal í hvívetna gæta hagsmuna SÁÁ og kemur fram fyrir hönd SÁÁ út á við m.a. í öllum viðræðum og samningum við opinbera aðila.
Framkvæmdastjórn ræður forstjóra heilbrigðisþjónustu SÁÁ með samningi og setur viðkomandi erindisbréf í samræmi við lög um heilbrigðisþjónustu. Framkvæmdastjórn ræður aðra framkvæmdastjóra eftir því sem við á.
Setja skal viðkomandi erindisbréf sem tiltekur skyldur og ábyrgðarsvið.
Framkvæmdastjórn skal sjá til að SÁÁ starfi á grundvelli skipurits. Framkvæmdastjórn skal funda reglulega. Fundargerðir skulu ritaðar.

9. grein Heilbrigðisþjónusta SÁÁ
Heilbrigðisþjónusta SÁÁ starfar í samræmi við lög um heilbrigðisþjónustu, lög um heilbrigðisstarfsmenn, lög um réttindi sjúklinga, lög um sjúkratryggingar og önnur þau lög, sem gilda um starfsemi heilbrigðisþjónustu SÁÁ hverju sinni.
Forstjóri heilbrigðisþjónustu SÁÁ skal skila tillögu um fjárhagsáætlun næsta árs, til framkvæmdastjórnar fyrir lok september ár hvert.

10.gr. Forstjóri og framkvæmdastjórar
Í samræmi við 9.grein ræður framkvæmdastjórn forstjóra til að annast daglegan rekstur heilbrigðisþjónustu SÁÁ og eftir þörfum framkvæmdastjóra til að annast annan daglegan rekstur SÁÁ.
Daglegur rekstur tekur ekki til ráðstafana sem eru óvenjulegar eða mikils háttar, þ.m.t. allar stærri framkvæmdir og fjárfesting. Slíkar ráðstafanir geta framkvæmdastjórar/forstjóri aðeins gert samkvæmt sérstakri heimild frá framkvæmdastjórn.
Í erindisbréfi forstjóra og framkvæmdastjóra skal tilgreina helstu markmið í þjónustu og rekstri SÁÁ til lengri og skemmri tíma. Forstjóri og framkvæmdastjórar bera ábyrgð á því að SÁÁ starfi á öllum sviðum í samræmi við lög og stjórnvaldsfyrirmæli.
Forstjóri og framkvæmdastjórar skulu sjá til þess að rekstrarútgjöld og rekstrarafkoma SÁÁ í heild sé í samræmi við áætlanir og ákvarðanir framkvæmdastjórnar og bera ábyrgð gagnvart henni.

11.grein Endurskoðun og félagslegir skoðunarmenn
Reikningar SÁÁ skulu endurskoðaðir af löggiltum endurskoðendum.
Aðalfundur SÁÁ kýs sér tvo félagslega skoðunarmenn og tvo til vara. Þeir skulu skoða reikninga SÁÁ og gera grein fyrir niðurstöðu sinni með sérstakri áritun.

12.grein Breytingar á samþykktum
Breytingar á samþykktum SÁÁ þurfa 3/4 hluta greiddra atkvæða til að öðlast gildi. Tillögur um slíkar breytingar skulu hafa borist framkvæmdastjórn 30 dögum fyrir aðalfund. Framkvæmdastjórn skal kynna aðalstjórn tillögurnar minnst 7 dögum fyrir aðalfund SÁÁ. Tillögur um breytingar á samþykktum SÁÁ á að kynna sérstaklega á miðlum SÁÁ.
SÁÁ verður ekki slitið nema á aðalfundi og skal þess getið í fundarboði ef til stendur að bera fram tillögu um slit samtakanna á fundinum. Fer um félagsslit sem lagabreytingar. Verði samtökin lögð niður skal afhenda eignir þeirra til annars félags sem vinnur að sama megintilgangi. Þarf tillaga um slíkt aðeins samþykki einfalds
meirihluta á þeim fundi sem samþykkt hefur slit. Sé slíku félagi ekki til að dreifa, eða hljóti tillaga ekki samþykki, skal fela þriggja manna nefnd að taka ákvörðun um, hvernig eignum skuli best ráðstafað í þessum megintilgangi. Skal einn einn nefndarmanna kosinn á fundinum, annar tilnefndur af heilbrigðisráðherra og hinn þriðji tilkvaddur af Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu.

13.grein Um skattleysi
Með ákvæðum 1.gr., 2.gr. og 12.gr þessara samþykkta er fyrir því séð að SÁÁ telji sig undanþegið skyldu til að greiða tekjuskatt og eignarskatt.

Þannig samþykkt á aðalfundi SÁÁ 2.maí 2023