Fara í efni

Nám í áfengis- og vímuefnaráðgjöf

Nám í áfengis- og vímuefnaráðgjöf fer fram á heilbrigðisstofnunum SÁÁ samhliða starfsþjálfun.

Starfið felur í sér þátttöku í áfengis- og vímuefnaráðgjöf undir handleiðslu og innifelur m.a. vaktskyldu, samskipti og þjónustu við sjúklinga auk þverfaglegrar samvinnu.

Eftirfarandi skilyrði þarf að uppfylla til að fá starfsleyfi sem áfengis- og vímuefnaráðgjafi:

  1. Lokið 3 ára eða 6.000 klukkustundum í vinnu á þar til gerðri heilbrigðisstofnun.
  2. Lokið 300 kennslustundum.
  3. Fengið leiðsögn í 225 klukkustundir og beina handleiðslu í 75 klukkustundir.
  4. Lokið tilskildum prófum og fengið vottun á starfshæfni.
 

Hæfniskröfur:

Stúdentspróf
Góð færni í mannlegum samskiptum og skipulögð vinnubrögð

Nánari upplýsingar veitir:

Ingunn Hansdóttir, yfirsálfræðingur SÁÁ

 

 

Sagan

Með reglugerð frá árinu 2006 varð til ný heilbrigðisstétt með heitinu áfengis- og vímuefnaráðgjafi. Með henni var viðurkennd staða og nám þeirra áfengis- og vímuefnaráðgjafa innan heilbrigðisþjónustunnar sem unnið höfðu hjá SÁÁ árum saman og fengið þar kennslu og handleiðslu. Starfið og námið var að fyrirmynd frá Bandaríkjunum og á upphafsárum SÁÁ sóttu ráðgjafar og kennarar þeirra hjá SÁÁ þekkinguna á ráðstefnur og í heimsóknum til mismunandi meðferðarstofnana þar. Ráðgjafaskipti fóru einnig fram milli ýmissa meðferðarstofnana og SÁÁ.

Strax frá upphafi sótti fjöldi frumkvöðla og forystumanna áfengis- og vímuefnameðferðar í Bandaríkjum Norður-Ameríku SÁÁ heim og miðlaði starfsmönnunum af reynslu sinni og þekkingu. Kennsla og þjálfun áfengis- og vímuefnaráðgjafa mótaðist og komst í nokkuð fastar skorður á árunum 1980-1990.

Á árinu 2003 hófst formleg samvinna við NAADAC (Samtök áfengis- og vímuefnaráðgjafa í Bandaríkjunum) og þá skoðuðu fulltrúr NAADAC aðstæður á sjúkrahúsinu Vogi og viðurkenndu sjúkrahúsið sem fullgilda menntastofnun til endurmenntunar fyrir áfengis- og vímuefnaráðgjafa í þeirra samtökum þann 12. maí 2003. Um leið var viðurkennt að áfengis- og vímuefnaráðgjafar, sem lokið höfðu námi hjá SÁÁ, gætu tekið próf NAADAC hér á landi og fengið með því leyfi til áfengis- og vímuefnaráðgjafar í USA. Fyrstu áfengis- og vímuefnaráðgjafarnir þreyttu og stóðust slík próf 25. nóvember 2003.