Fara í efni

Jafnréttis - og jafnlaunastefna SÁÁ

JAFNRÉTTISSTEFNA SÁÁ

Jafnrétti kynjanna

SÁÁ hefur sett sér stefnu í jafnréttismálum og mótað aðgerðaáætlun sem hefur það að markmiði að tryggja með skipulögðum hætti að öll kyn njóti jafnréttis í starfi ásamt því að stuðla að jöfnum tækifærum á öllum sviðum óháð kynferði. Metnaður SÁÁ stendur til að allir starfsmenn njóti jafnréttis óháð kyni, aldri, uppruna eða trú og að hver starfsmaður verði metinn og virtur á grundvelli eigin kunnáttu og hæfileika. Öll kyn skulu hafa jafna möguleika til starfa, ábyrgðar, launa, stöðuhækkana, endurmenntunar og starfsþjálfunar. Það er á ábyrgð yfirmanna að tryggja jafnrétti kynjanna hjá SÁÁ.

Markmið

Markmið jafnréttisstefnu SÁÁ er að tryggja jafnrétti og jafna stöðu allra kynja hjá SÁÁ. Leitast skal við að þátttaka og áhrif allra kynja sé sem jöfnust í starfseminni og jafnt tillit tekið til sjónarmiða allra kynja.

  • Jafnréttis skal gætt við ráðningar í störf
  • Sömu laun skal greiða fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf
  • Starfsmönnum skal gert kleift að samræma vinnu og einkalíf
  • Öll kyn skulu hafa jafnan aðgang að endurmenntun og starfsþróun
  • Einelti, kynbundið ofbeldi, kynbundin og kynferðisleg áreitni eru ekki liðin.

Aðgerðir til að ná fram markmiðum

Ráðningar
Störf hjá SÁÁ skulu skipuð óháð kyni. Þegar ráðið er í starf hjá SÁÁ, skal sú meginregla viðhöfð að standi valið á milli jafnhæfra umsækjenda verði sá ráðinn sem er hæfastur óháð kyni. Heimilt er að hvetja sérstaklega það kynið sem er í minnihluta til þess að sækja um laust starf ef jafna þarf kynjaskiptingu einhvers staðar hjá SÁÁ, sbr. 16. gr. laga nr. 150/2020 um jafna stöðu og jafnan rétt kynja. Í ársskýrslu jafnréttisfulltrúa skal koma fram samantekt á kynjahlutföllum í öllum starfshópum ásamt yfirliti yfir auglýst störf, umsækjendur og ráðningar.

Mælikvarði

  • Skýrsla úr launakerfi og starfsmannahaldi

Launajafnrétti

Við ákvörðun launa skal þess gætt að öll kyn fái jöfn laun og njóti sömu kjara fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf sbr. 6. gr. laga nr. 150/2020. Öll hlunnindi og kjör skulu ákveðin m.t.t. starfs og þeirrar ábyrgðar sem því fylgir. Þau viðmið sem lögð eru til grundvallar launaákvörðun skulu ekki fela í sér kynjamismunun.

Leiðir

  • Árleg greining á launum og fríðindum starfsmanna. Komi fram óútskýrður launamunur skal gripið til aðgerða til að leiðrétta þann mismun.
  • Jafnlaunakerfi SÁÁ
  • Starfsmatskerfi SÁÁ

Ábyrgð

  • Formaður og framkvæmdastjórar.

Mælikvarði

  • Niðurstaða úr árlegri launa- og kjaragreiningu sem skal liggja fyrir í lok fyrsta ársfjórðungs ár hvert.

Samræming vinnu og einkalífs

Leitast er við að gera öllum kynjum kleift að samræma vinnuskyldur sínar við skyldur gagnvart fjölskyldu s.s. með hlutastörfum, sveigjanleika í vinnutíma og vinnuaðstæðum eftir því sem verkefni og aðstæður leyfa. Enn fremur er leitast við að taka tillit til einstaklingsbundinna aðstæðna starfsmanna hverju sinni. Í vissum tilvikum, og að höfðu samráði við yfirmann, getur starfsmaður unnið hluta starfs síns frá heimili sínu. Allir starfsmenn eru hvattir til þess að nýta sér fæðingar- og foreldraorlof óháð kyni.

Mælikvarðar

  • Vinnustaðargreining sem framkvæmd er annað hvert ár

Starfsþjálfun og endurmenntun

Öll kyn skulu njóta sömu möguleika til endurmenntunar og starfsþjálfunar og fá tækifæri til að afla sér viðbótarþekkingar og/eða auka hæfni í starfi, eða til undirbúnings annarra starfa. Þess skal gætt að kynjum sé ekki mismunað við úthlutun verkefna, tilfærslu í starfi eða í öðru því sem almenn starfsþróun býður upp á.

Leiðir

  • Starfsmenn eru hvattir til þekkingaröflunar með því að sækja viðeigandi námskeið eða þjálfun
  • Endurmenntunaráætlun

Mælikvarðar

  • Árleg greining á þátttöku kynja í sambærilegum störfum á námskeiðum og/eða þjálfun

Áreitni og einelti

Allir starfsmenn eiga rétt á því að komið sé fram við þá af virðingu. Kynferðisleg áreitni og einelti eru ekki liðin. Starfsmenn sem verða fyrir slíkri framkomu eiga rétt á því að kæra viðkomandi háttsemi. Mótuð hefur verið viðbragðsáætlun til að taka á slíkum vandamálum komi þau upp. Áætlunin miðar að því að taka markvisst á slíkum tilvikum og leysa með uppbyggilegum hætti.

Einelti: Ámælisverð eða síendurtekin ótilhlýðileg háttsemi, þ.e. athöfn eða hegðun sem er til þess fallin að niðurlægja, gera lítið úr, móðga, særa, mismuna eða ógna og valda vanlíðan hjá þeim sem hún beinist að.

Kynbundið ofbeldi: Ofbeldi á grundvelli kyns sem leiðir til eða gæti leitt til líkamlegs, kynferðislegs eða sálræns skaða eða þjáninga þess sem fyrir því verður, einnig hótun um slíkt, þvingun eða handahófskennda sviptingu frelsis, bæði í einkalífi og á opinberum vettvangi.

Kynbundin áreitni: Hegðun sem tengist kyni þess sem fyrir henni verður og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi og skapa aðstæður sem eru ógnandi, fjandsamlegar, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi fyrir viðkomandi.

Kynferðisleg áreitni: Hvers kyns kynferðisleg hegðun sem hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu þess sem fyrir henni verður, einkum þegar hegðunin leiðir til ógnandi, fjandsamlegra, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi aðstæðna. Hegðunin getur verið orðbundin, táknræn og/eða líkamleg.

Endurskoðun og eftirfylgni

Jafnréttisstefnan skal endurskoðuð á þriggja ára fresti. Yfirmenn skulu á minnst tveggja ára fresti kanna viðhorf starfsmanna til jafnréttismála hjá SÁÁ. Yfirmenn sjá um að kynna stefnuna fyrir starfsmönnum. Jafnréttisáætlun var síðast endurskoðuð 24.4.2023.

Ábyrgð

Formaður SÁÁ ber ábyrgð á að jafnréttisstefnu sé fylgt. Framkvæmdastjórar í samvinnu við aðra yfirmenn skulu vinna að því að jafnréttisstefnu sé framfylgt og jafnframt leggja mat á árangur. Yfirmenn gera forstjóra grein fyrir stöðu jafnréttismála hjá SÁÁ í árlegri skýrslu sinni.

JAFNLAUNASTEFNA SÁÁ

Jafnlaunastefna þessi nær til allra starfsmanna SÁÁ og kveður á um markmið og aðgerðir til að tryggja starfsfólki réttindi til jafnra launa eins og fram kemur í lögum nr. 150/2020 um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna.

SÁÁ greiðir laun eftir umfangi og eðli starfa og tekur mið af starfslýsingu og þeim kröfum sem gerðar eru til starfsins. Markmiðið er að allt starfsfólk stofnunarinnar njóti jafnra launa og sömu kjara fyrir sömu eða jafnverðmæt störf óháð kyni.
Launaákvarðanir skulu byggðar á málefnalegum forsendum, í samræmi við kjara- og stofnanasamninga.
Launaákvarðanir eru skjalfestar, rökstuddar, rekjanlegar og undirritaðar af ábyrgðaraðilum.

Til að fylgja eftir jafnlaunastefnu SÁÁ munu stjórnendur SÁÁ skuldbinda sig til að:

  • Innleiða, skjalfesta og viðhalda jafnlaunakerfi í samræmi við staðalinn ÍST 85:2012 og öðlast jafnlaunavottun í samræmi við lög nr.150/2020, um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna.
  • Framkvæma launagreiningu árlega og koma með úrbætur ef kröfur staðalsins eru ekki uppfylltar.
  • Framkvæma árlega rýni stjórnenda og setja fram jafnlaunamarkmið.
  • Tryggja að jafnlaunastefna sé aðgengileg á innra neti starfsmanna.

 JAFNLAUNAVOTTUN SÁÁ

SÁÁ hlaut þann 27. ágúst 2023 jafnlaunavottun á Jafnlaunastaðalinn ÍST 85 sem staðfest hefur verið af Jafnréttisstofu. Jafnlaunavottun staðfestir að komið hafi verið upp ferli sem tryggir að málsmeðferð og ákvarðanir í launamálum feli ekki í sér kynbundna mismunun. Vottun SÁÁ er í gildi frá 2023-2026.

Meginmarkmið jafnlaunavottunar er að vinna gegn kynbundnum launamun og stuðla að jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði.