Fara í efni

Meðferðarstöðin Vík

Inniliggjandi meðferð skilar betri árangri. Meðferð á Vík tekur við eftir að afeitrun á Vogi er lokið og lágmarksjafnvægi er náð.

Inniliggjandi eftirmeðferð

Meðferð á Vík tekur við eftir að afeitrun á Vogi er lokið og lágmarksjafnvægi er náð. Þar er boðið upp á sérhæfð meðferðarúrræði, hvert þeirra er í 28 daga og felur í sér 40-48 fyrirlestra, 36-44 hópmeðferðir, 20-28 verkefnatíma, ásamt að lágmarki 4-6 einstaklingsviðtöl.

Meðferðarúrræðin fara fram í tveimur aðskildum byggingum, eru algjörlega kynjaskipt og í þeim öllum er áhersla lögð á dagskipulag með hreyfingu, reglu í matmálstímum og svefni, samveru og stuðningi. Þar er unnið eftir áfallamiðaðri nálgun og stuðst við verkefnabækur.

Á Vík gefst tími og næði til að kenna leiðir til að fást við fíkn, bæta úrlausnargetu, og stuðla að betri félagslegum samskiptum. Fræðsla (psychosocial education), hópmeðferð, og jafningja-verkefnavinna eru gagnreyndar leiðir til að stuðla að breytingum. Þar er sólarhringsvakt og kemur heilbrigðisstarfsfólk SÁÁ að meðferðinni í þverfaglegu teymi; læknar, sálfræðingar og áfengis- og vímuefnaráðgjafar, sem bera uppi meðferðina frá degi til dags.  Gátlisti fyrir Vík

Kvennameðferð

Kvennameðferð mætir sérþörfum kvenna og stuðlað er að öruggu umhverfi fyrir konur til að auðvelda þeim að takast á við sinn vanda. Konur sæta oft meiri fordómum og fá minni stuðning frá sínu nærumhverfi og því miðar meðferðin að því að skapa samstöðu kvenna og rjúfa þá félagslegu einangrun sem konur í neyslu upplifa.

Megináherslan er á að læra að fást við fíkn (fíknispjörun) og kenna leiðir til að takast á við streitu, byggja upp sjálfstraust og efla samskipti við fjölskyldu.

Karlameðferð

Karlameðferð er fyrir menn yngri en 55 ára sem ekki hafa farið áður í meðferð. Endurhæfingin miðar að því að þjálfa færni til að tileinka sér edrú líf, og er í fyrstu lögð áhersla á að styðja við grunnþarfir hvers og eins og byggja upp færni til að fast við fíkn (fíknispjörun). Þegar lengra er náð er áhersla lögð á að skoða einstaklingshæfðar fallvarnir (relapse prevention).

 

Víkingameðferð (endurkomumenn)

Víkingameðferð er fyrir þá menn sem eiga meðferðir að baki og þekkja jafnvel bata og aðdraganda falls í neyslu. Meðferðinni er m.a. beint að fallvörnum, fíknispjörun og einstaklingshæfðri áætlun fyrir lengri bata.

Meðferð fyrir eldri karla

Meðferð fyrir eldri karla er fyrir menn 55 ára og eldri. Þeir eiga margt sameiginlegt og áhersla er m.a. á að vinna gegn einangrun, taka á ýmsum undirliggjandi heilsufarsvanda og huga að félagslegum tengslum.