Í tilefni af Edrúar febrúar bjóða 66°Norður og SÁÁ til veislu í verslun 66°Norður á Hafnartorgi, fimmtudaginn 29. janúar frá kl. 18:30–20:30. Á viðburðinum hefst sala á Edrú-bolnum, en allur ágóði af sölu hans rennur til styrktar SÁÁ.
Glaðningur fylgir með fyrstu 30 bolum sem eru keyptir.
Boðið verður upp á tónlist og fljótandi veigar frá Töst. Við hvetjum alla til að kíkja við, njóta stemningarinnar og sýna málefninu stuðning!
Við munum einnig dreifa póstkortum sem unnin eru í samstarfi við fjóra listamenn. Að verkefninu komu Margrét Sól, Pétur Geir og strákarnir í SKRIPO. Verkefnið var hugsað til að dreifa boðskapnum og tengja saman list, samfélag og bata.
-------
Edrúar er verkefni sem varpar ljósi á líf án áfengis og þann skýrleika og nærveru sem því fylgir. Það sýnir að edrú lífsstíll snýst ekki um að missa af neinu, heldur um að upplifa hreinlega meira.
Edrú-bolurinn var skapaður í samstarfi við 66°Norður til styrktar SÁÁ. Upphaflega hugmyndin er eftir fatahönnuðinn Rúbínu Singh, sem sótti innblástur í slagorðið „Allt annað líf“ og þá merkingu sem setningin hefur fyrir hana og fólkið í kringum hana. Í ferlinu varð henni ljóst hversu samtengd velferð okkar allra er. Þegar okkur líður vel, sendum við frá okkur jákvæða strauma sem smita út frá sér.
Hönnunin var síðan þróuð áfram í samstarfi við Aron Má, einnig þekktan sem Midnight Mar, þar sem boðskapur og fagurfræði mætast í einni flík. Útkoman er einföld og skýr áminning um að edrú líf er ekki skortur, heldur einmitt þetta: Allt annað líf.