Aðalfundur SÁÁ 2025 - Binni gerður að heiðursfélaga í SÁÁ
Aðalfundur SÁÁ fór fram í Von í gær. Á dagskrá voru venjuleg aðalfundarstörf og fundurinn fór vel fram og án ágreinings. Anna Hildur Guðmudsdóttir formaður SÁÁ setti fundinn og lagði til að Hörður J. Oddfríðarson yrði fundarstjóri og Sigrún Ammendrup fundarritari. Það var samþykkt með lófataki.
Þær Anna Hildur og Ragnheiður Hulda Friðriksdóttir forstjóri SÁÁ fóru svo yfir starfsemi SÁÁ á árinu 2024 og hvað hefði verið gert. Ásgerður Th. Björnsdóttir framkvæmdastjóri rekstrarsviðs fór að því loknu yfir reikninga SÁÁ og gerði grein fyrir vinnu í sambandi við uppgjör og endurskoðun ásamt því að leggja fram áætlun fyrir árið 2025.
Að lokinni staðfestingu reikninga fór fram stjórnarkosning, en kjósa þurfti 16 aðalmenn og 7 varamenn. Þau sem höfðu gefið kost á sér í aðalstjórn voru: Andrea Þormar, Anna Sigríður Jónsdóttir, Grétar Örvarsson, Gunnar Alexandersson, Halldóra Ingunn Jónasdóttir, Helga Guðrún Óskarsdóttir, Helga Rut Svanbergsdóttir, Hjalti Jón Sverrisson, Hjörtur Bergstað, Ingi Þór Eyjólfsson, Kristmundur R Carter, Óskar Torfi Viggósson, Ragnar Þór Reynisson, Sigurður Friðriksson, Stefanía Sörheller og Sveinbjörn Hrafnsson. Þau eru jafnmörg og sætin sem í boði voru og eru því sjálfkjörin. Það sama átti við um þau sem buðu sig fram til varastjórnar, en þau voru: Arnór Gauti Helgason, Ásta Huld Hreinsdóttir, Gísli Sveinn Loftsson, Helga Sigurðardóttir, Petra Jónsdóttir, Sigurbjörg Anna Þór Björnsdóttir og Theódór Skúli Halldórsson. Félagslegir skoðunarmenn SÁÁ voru einnig sjálfkjörin: Gunnar Örn Ólafsson og Þór Fannar. Til vara þau Ágúst Jónatansson og Inga Hrönn Ketilsdóttir.
Hendrik Berndsen, Binni blómasali, var gerður að heiðursfélaga í SÁÁ á fundinum. Í máli Önnu Hildar formanns SÁÁ við það tilefni kom fram að Binni væri lifandi auglýsing fyrir árangur SÁÁ og að hann væri órjúfanlegur hluti af sögu ímynd samtakanna. Hann hefði lagt líf og sál í uppbyggingu SÁÁ í áratugi og ætíð boðinn og búinn að aðstoða fólk í fíknvanda. Hún sagðist jafnframt treysta því að geta leitað til hans í framtíðinni eftir góðum ráðum og stuðningi. Binni ávarpaði fundinn og lagði áherslu á hversu miklu skipti að halda utan um sögu samtakanna og einingu innan þeirra. Hann rifjaði upp hvernig upphafið var. Var honum klappað lof í lófa og fundarfólk reis á fætur til að hylla hann þegar hann gekk af sviðinu.
Þá var Valgerður Rúnarsdóttir framkvæmdastjóri lækninga hjá SÁÁ kölluð á svið og henni afhent viðurkenning fyrir 25 ára starf hjá SÁÁ. Við það tækifæri sagðist hún ekki sjá aðra vinnustaði sem ættu betur við sig en SÁÁ.
Engar tillögur lágu fyrir fundinum um breytingar á samþykktum SÁÁ, en Anna Hildur formaður gerði grein fyrir vinnu nefndar um samþykktir SÁÁ á milli aðalfunda. Lagði hún til að þeirri vinnu yrði haldið áfram.
Tillaga um óbreytt félagsgjöld var samþykkt og að því loknu var komið að öðrum málum. Þar byrjaði Anna Hildur að segja frá því að 50 ára afmælisnefnd SÁÁ hefði verið sett á fót og hefði þegar hafið vinnu sína að undirbúningi afmælisins. Nokkrar umræður sköpuðust um hvað ætti að gera af þessu tilefni. Þá kom fram tillaga um að fela framkvæmdasjtórn að álykta um ánægju okkar með auknar fjárveitingar nýrrar ríkisstjórnar til málaflokksins. Var það samþykkt. Að lokum kom Stefán Pálsson markaðs- og kynningarstjóri SÁÁ í pontu og kynnti álfasöluna sem er að hefjast og stendur fram yfir helgi.
Að því loknu var fundi slitið og kallað til aðalstjórnarfundar samkvæmt hefð.
Á þeim fundi var kjörinn nýr ritari SÁÁ, Anna Margrét Kornelíusdóttir og tveir meðstjórnendur þeir Jóhannes Baldur Guðmundsson og Ragnar Þór Reynisson. Gróa Ásgeirsdóttir gaf ekki kost á sér áfram sem ritari og Jóhannes kom inn í stað Óskars Torfa Viggósonar. Aðrir í framkvæmdastjórn eru þau: Anna Hildur Guðmundsdóttir formaður, Þráinn Farestveit varaformaður og meðstjórnendurnir Ásmundur Friðriksson, Björk Ólafsdóttir, Ragnheiður Dagsdóttir og Sigurður R. Guðmundsson.