Aðalstjórn samþykkir að kanna hagkvæmni þess að flytja starfssemi Vogs.
Aðalstjórnarfundur SÁÁ sem haldinn var þriðjudaginn 2.desember samþykkti tillögu þess efnis að fela framkvæmdastjórn að kanna hagkvæmi þess að flytja starfssemi sjúkrahússins Vogs og leggja fyrir heildstæða tillögu þess efnis fyrir aðalstjórn. Tillagan á að liggja fyrir fyrri hluta árs 2026.
Framkvæmdastjórn er falið að greina sérstaklega eftirfarandi þætti:
- Hvort nauðsynlegt sé að ráðast í nýbyggingar t.d. á Vík til að rúma þá starfsemi sem fyrirhugað er að flytja frá Vogi.
- Umfang þeirrar uppbyggingar sem þá kann að vera þörf á.
- Áætlaðan heildarkostnað við slíka uppbyggingu.
- Helstu samlegðar- og hagræðingaráhrif sem kunna að felast í því að sameina eða færa starfsemi Vogs og Víkur nær hvorri annarri.
- Verðmæti núverandi húsnæðis á Vogi og möguleika á sölu þess, þar með talið áætlað söluverð og helstu forsendur.
- Aðrir möguleikar í uppbyggingu starfsseminnar m/v ofangreint
Það liggur fyrir að húsnæði Vogs er komið á tíma um mjög viðamikið viðhald, jafnvel þó því hafi verið vel við haldið frá upphafi. SÁÁ á land í kringum Vík á Kjalarnesi og hefur kannað, bæði með formlegum og óformlegum hætti, hvort og þá hvernig það land gæti nýst sem best fyrir starfssemi SÁÁ og það er tímabært að setja þessa vinnu á fullt nú þegar hyllir undir Sundabraut. Jafnframt er mikilvægt að kanna aðra möguleika í stöðunni og hvernig hagkvæmast er að standa að málum.