Fara í efni
07. maí 2024

Álfurinn nýtir sér umhverfisvænan ferðamáta fyrir allt annað líf!

Í hádeginu í dag tók formaður SÁÁ, Anna Hildur fyrsta rúntinn á Hopp hlaupahjólinu í Von Efstaleiti til að afhenda heilbrigðisráðherra Willum Þór Þórssyni fyrsta Álfinn í ár.  Sæunn Ósk Unnsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Hopp Reykjavík, var einnig á staðnum. 

Álfasala SÁÁ hefst miðvikudaginn 8. maí. Álfurinn hefur verið meira og minna á röltinu síðustu árin en í ár ætlar hann að nýta sér umhverfisvænan ferðamáta og verður Álfurinn á ferðinni um allt land á hlaupahjóli dagana 8.-12. maí n.k.  

 

Við hjá Hopp Reykjavík viljum ýta undir áfengis og vímuefnalausan akstur og það var því of gott til að vera satt þegar álfurinn ákvað að hoppa í ár. Við erum þakklát fyrir að fá að styrkja það góða starfs sem SÁÁ vinnur enda tengjum við sterkt við slagorðið allt annað líf. Við höfum gjörbreytt samgöngum og viljum að fólk hoppi af ábyrgð.” Segir Sæunn Ósk Unnsteinsdóttir framkvæmdastjóri Hopp Reykjavíkur.

Hopp Reykjavík mun einnig styrkja Álfasölu SÁÁ með nýskapandi hætti en startgjald af sérmerktum Hopp hlaupahjólum í appinu mun renna óskipt til SÁÁ dagana sem álfasalan stendur yfir. Þannig munu notendur Hopp styrkja SÁÁ á sama tíma og þau hoppa. 

Álfasala SÁÁ er ein mikilvægasta fjáröflunarleið samtakanna og aldrei hefur verið jafn mikil þörf fyrir góðar undirtektir við Álfinum og nú. Það skiptir miklu máli að fólk fái aðstoð til að takast á við fíknsjúkdóminn til að eignast betra og allt annað líf.

Verð á Álfinum er óbreytt og kostar hann 3.000,- krónur. 

Álfasala SÁÁ stendur frá 8. maí til 12. maí og verður sölufólk á fjölförnum stöðum um allt land.