Fara í efni
16. janúar 2026

Allt annað líf – reynslusögur fólks sem valdi edrú lífsstíl

SÁÁ kynnir nýtt og metnaðarfullt verkefni undir heitinu Allt annað líf, þar sem reynslusögur fólks sem lifir edrú lífi fá að njóta sín. Markmið verkefnisins er að sýna með skýrum og einlægum hætti hvernig lífið getur verið án áfengis, ekki fullkomið, en skýrara, heiðarlegra og oft ríkara.

Hugmyndin að verkefninu hefur verið lengi í mótun hjá SÁÁ. Þegar Tjörvi Jónsson hafði samband við samtökin með þessa hugmynd varð ljóst að tíminn var réttur. „Þetta var akkurat það sem við þurftum til að koma verkefninu af stað,“ segir Anna Hildur, formaður SÁÁ.

Í kjölfarið hófst undirbúningur þar sem leitað var til einstaklinga með ólíkan bakgrunn og reynslu. Fimm einstaklingar tóku þátt og sögðu frá sinni vegferð, áskorunum og því sem þau hafa öðlast með því að velja edrú lífsstíl. Sögurnar eru ólíkar en eiga það sameiginlegt að varpa ljósi á hvað það er í raun allt annað líf að lifa án áfengis og alls þess sem fylgir því.

„Lífið er ekki alltaf auðvelt, hvort sem fólk drekkur eða ekki. Það fer upp og niður. En að vera skýr, meðvitaður og vita hvað maður er að gera – það breytir öllu,“ segir Anna Hildur. Með verkefninu vill SÁÁ sýna að edrú líf snýst ekki um að maður sé að missa af einhverju, heldur um ávinning, valdeflingu og nýja möguleika.

Það er ekki tilviljun að verkefnið er kynnt í tengslum við Edrúar febrúar. Herferðin miðar að því að vekja vitund um ávinning vínlauss lífsstíls og er jafnframt mikilvæg forvörn. „Edrúar febrúar gefur fólki tækifæri til að staldra við, prófa eitthvað nýtt og endurmeta samband sitt við áfengi. Reynslusögurnar í Allt annað líf falla vel að þeirri umræðu,“ segir Anna Hildur.

Tökumaður verkefnisins var Tjörvi Jónsson og ljósamaður Sindri Steinarsson, sem lögðu áherslu á að nálgast sögurnar af virðingu og næmni. Útkoman er einlæg og mannleg mynd af lífi fólks sem hefur valið að lifa án áfengis.

Allt annað líf er eitt af mörgum verkefnum sem eru framundan hjá SÁÁ í Edrúar febrúar. Með verkefninu vonast samtökin til að fleiri sjái að lífið án áfengis getur verið fjölbreytt, innihaldsríkt og – fyrir mjög marga – betra líf.