Fara í efni
04. desember 2025

"Alltaf gagn af því að hitta annað fagfólk"

Sigurður Gunnsteinsson og Páll Geir Bjarnason sóttu árlega ráðstefnu NAADAC í október sl. NAADAC eru samtök fagfólks sem vinna við fíknsjúkdóma og því sem þeim tengist. Íslendingar hafa sótt þessar ráðstefnur í yfir 30 ár og ætíð komið til baka með hugmyndir og þekkingu sem hafa nýst okkur beint og óbeint í meðferðarstarfinu hér heima. Þeir voru sammála um að ráðstefnur sem þessar gagnist fagfólki gífurlega, það að hitta aðra sem eru að vinna í feltinu, skiptast á skoðunum og reynslu og afla sér nýrrar þekkingar. 

Að þessu sinni var mest fjallað um fíknvanda mismunandi hópa og bata við fíkn. Mikil áhersla var lögð á að fagfólkið þarf að standa saman, vinna gegn fordómum og vinna gegn niðurskurði yfirvalda á aðstoð fyrir fólk með fíknvanda. Í upphafserindi forseta NAADAC kom fram hvatning til fagfólks að standa saman ásamt áminningu um að fíknsjúkdómar spyrja ekki um stétt né stöðu, þeir geta komið upp hjá öllum, sama hvaðan fólk er ættað eða það býr.

Margt var um manninn á ráðstefnunni og tengsl hafa myndast í gegnum tíðina og á ráðstefnunni í ár hittu þeir Siggi og Palli mjög marga sem hafa lagt þeim og SÁÁ gott til, þarna var fólk sem hefur komið til Íslands með fræðslu fyrir áfengis- og vímuefnaráðgjafa og fólk sem gott er að hafa með sér í liði. Þar má helstan telja Gerry Schmidt sem er fyrrverandi forseti NAADAC og fyrrverandi formaður réttindaráðs NAADAC. Hann hefur margoft komið til Íslands, bæði haldið vinnustofur og fræðsluerindi hér en einnig komið til að kynna sér starfssemi SÁÁ og annarra meðferðarstaða hér á Íslandi og svo hefur hann komið hér fríum.

Auk þeirra Sigga og Palla voru á ráðstefnunni þau Jóna Ólafsdóttir sem er formaður fagráðs Landlæknis fyrir áfengis- og vímuefnaráðgjafa og Hjalti Björnsson áfengis- og vímuefnaráðgjafi.

Ráðstefnan í ár var bæði staðbundin en einnig streymt á netinu. Samanlögð mæting í báða liði gerir þetta að stærstu NAADAC ráðstefnu til þessa.