Fara í efni
04. maí 2023
Fréttir

Anna Hildur endurkjörin formaður SÁÁ

Anna Hildur Guðmundsdóttir var endurkjörin formaður SÁÁ á fundi aðalstjórnar samtakanna að loknum aðalfundi sem haldinn var 2. maí. Þráinn Farestveit var endurkjörinn varaformaður og Gróa Ásgeirsdóttir ritari.

Á aðalfundinum kom fram að rekstrartekjur SÁÁ námu rúmum tveimur milljörðum króna 2022 og var rekstrarafkoman neikvæð um 184 milljónir króna. Sjálfsaflatekjur SÁÁ námu 570 milljónum króna, seld þjónusta 118 milljónum og framlag á fjárlögum til sjúkrareksturs var 1.330 milljónir króna. Á árinu 2022 nutu 3.500 einstaklingar þjónustu SÁÁ og voru þjónustusnertingar 28 þúsund. Með þjónustusnertingu er átt við hvert skráð tilfelli þar sem viðkomandi er sinnt með einum eða öðrum hætti.

Viðamiklar breytingar á samþykktum SÁÁ voru samþykktar á aðalfundinum og hafa þær verið birtar á vefsíðu samtakanna saa.is. Þá voru þau Íris Kristjánsdóttir og Sigurður Friðriksson útnefnd heiðursfélagar SÁÁ.

Á fundinum fjallaði Anna Hildur um þau áform SÁÁ að beina athyglinni í vaxandi mæli að því jákvæða sem fylgir því að ná tökum á fíknsjúkdómnum. Ástæða væri til að tala um gleðina og það nýja og betra líf sem kemur í kjölfarið - allt annað líf.