Fara í efni
27. ágúst 2025

Dóttir Skin styrkir SÁÁ með söfnun í minningu Hermanns Ragnarssonar

SÁÁ hefur tekið á móti rausnarlegum styrk að upphæð 549.001 kr. frá íslenska húðvörumerkinu Dóttir Skin, sem Helga Sigrún stofnaði og rekur.

Söfnunin var tileinkuð föður Helgu, Hermanni Ragnarssyni, sem hefði orðið sjötugur á hlaupadegi Reykjavíkurmaraþonsins. Í tilefni dagsins bauð Dóttir Skin 22% afslátt í netverslun sinni og lét jafnframt 70% af öllum ágóða sölunnar renna til SÁÁ.

„Í dag hefði elsku pabbi minn orðið sjötugur. Til að minnast hans og heiðra baráttuna sem hann háði [...] munum við styrkja SÁÁ, til að styðja fólk og fjölskyldur í baráttu sinni við fíknisjúkdóma. SÁÁ bjargar lífum, það er bara þannig,“ skrifaði Helga Sigrún þegar hún kynnti söfnunina.

Við hjá SÁÁ þökkum Helgu Sigrún og Dóttir Skin kærlega fyrir hlýjan og fallegan stuðning. Styrkurinn mun nýtast til að efla starf okkar í þágu fólks og fjölskyldna sem glíma við fíknisjúkdóma.

Helga Sigrún Hermannsdóttir er íslensk frumkvöðull með M.Eng. gráðu í efnaverkfræði frá DTU í Danmörku. Hún stofnaði húðvörumerkið Dóttir Skin fyrir um þremur árum í samstarfi við CrossFit íþróttakonurnar Annie Thorisdóttir og Katrínu Davíðsdóttur. Fyrsta íslenska sólarvörn Dóttir Skin hefur vakið athygli fyrir vatnshelda, ilmefnalausa og áhrifaríka formúlu sem hentar vel viðkvæmri húð. Helga leggur sérstaka áherslu á gagnsæi, vísindalega nálgun og fræðslu þegar kemur að þróun snyrtivara — og undir hennar leiðsögn hefur fyrirtækið vaxið hratt á markaði.