Fara í efni
03. nóvember 2023
Fréttir

Heimsókn til Vestmannaeyja

Heimsækjum Ísland

SÁÁ rekur heilbrigðisþjónustu fyrir fólk með fíknsjúkdóma og aðstandendur þeirra. Þar sem SÁÁ eru landsamtök skiptir það miklu máli að ná til allra landsmanna á sem virkastan hátt.

Það er í þeim tilgangi sem við heimsækjum Ísland, til að hitta embættisfólk, starfsfólk velferðarþjónustu og heilsugæslu, starfsfólk framhaldsskóla, hitta íbúa ásamt því að mynda tengsl við þá sem reka fyrirtæki í heimabyggð.

Við teljum mikilvægt að stjórnendur sveitarfélaga séu meðvitaðir um hvaða þjónustu SÁÁ getur veitt, og við teljum nauðsynlegt að koma á virkum samskiptum við félagsþjónustuna og heilsugæsluna til að skjólstæðingar þeirra og okkar fái betri þjónustu. Við erum á því að góð tengsl við forvarnateymi framhaldsskóla og fræðsla sem hentar starfsfólki skólanna og foreldrum nemendanna séu mjög gagnleg. Í öllum sveitarfélögum starfa vel rekin fyrirtæki sem hafa áhuga á samfélagslegri ábyrgð og geta gengt lykilhlutverki í að bæta lífsgæði í sveitarfélaginu. En kannski er mikilvægast að íbúar sveitarfélaga sjái að SÁÁ getur veitt þjónustu og hafi áhuga á velferð íbúanna.

Það er undir þessum formerkjum sem við heimsóttum Ísafjörð í apríl s.l. og svo heimsóttum Vestmannaeyjar í lok október. Báðar þessar heimsóknir tókust feikivel og við hittum marga.

Þegar til Vestmannaeyja kom hittum við fyrir álfadrottninguna og ambassador SÁÁ í Vestmannaeyjum, hana Sirrý Björt Lúðvíksdóttur og skiptum liði, annar hluti SÁÁ teymisins átti samtal við hluta af forvarnarteymi Framhaldsskólans, þær Ingibjörgu og Margréti, heimsótti bæjarskrifstofurnar og hitti þar Írisi bæjarstjóra og Ernu æskulýðs-, tómstunda- og íþróttafulltrúa. Á fjölskyldu- og fræðslusviði tók Jón Pétursson á móti teyminu með sínu fólki og á heilsugæslunni var það Halti Kristjánsson sem mætti okkur ásamt hópi starfsfólks.

Hörður, Halldóra, Margrét, Anna Hildur og Ingibjörg i Framhaldsskólanum í Vestmannaeyjum. 

Hörður, Erna æskulýðs-, tómstunda- og íþróttafulltrúi, Íris bæjarstjóri, Anna Hildur og Halldóra.

Hinn hluti teymisins fór í Vinnslustöðina þar sem Lilja B. Arngrímsdóttir tók á móti hópnum, Ísfélagið hvar Guðmundur Jóhann Árnason var í forsvari og í Miðstöðina og hitti þar fyrir Marinó Sigursteinsson.

Deginum lauk svo á því að Vestmanneyjingum var boðið á Einsa kalda, þar sem Einar Björn Kárason vert og hans fólk, töfraði fram gómsæta smárétti og gosdrykki. Eftir stutt ávörp og kynningu á jólaálfinum, tók svo Jarl Sigurgeirsson skólastjóri Tónlistarskólans við og hélt uppi fjörinu.

Verkefnið Heimsækjum Ísland heldur svo áfram á næstu vikum, framundan eru heimsóknir á Egilsstaði (janúar eða febrúar) og Akureyri (apríl eða maí), en einnig verður fyrri heimsóknum á Ísafjörð og til Vestmannaeyja fylgt eftir.

Marinó hjá Miðstöðinni með Stefáni og Hilmari.

Sirrý, Stefán, Hilmar með Guðmundi hjá Ísfélaginu.