Fara í efni
27. ágúst 2025

Full af lífi! – námskeið um vínlausan lífsstíl

Full af lífi!

• Námskeiðið hefst 22. október og lýkur 19. nóvember 2025
• Verð: 38.900 kr.
• Staður: Von, Efstaleiti 7 – kl. 20 á miðvikudagskvöldum
• Námskeiðið er hæft til styrkja hjá stéttarfélögum
• Leiðbeinendur: Gunnar Hersveinn rithöfundur og heimspekingur og Margrét Leifsdóttir arkitekt og heilsumarkþjálfi.
Námskeiðið er samstarfsverkefni leiðbeinenda og SÁÁ.

Mottó: Skýr hugur, skapandi hjarta, hraustur heili.

Skráning á námskeið hér

Almennt

Að lifa án áfengis er gjöf. Það krefst hugrekkis að breyta líferni sínu og hætta því sem telst eðlilegt í samfélaginu. Þátttakendur á þessu námskeiði fá að kynnast aðferðum við að breyta um lífsstíl. Efnið fjallar um sjálfsaga og vellíðan, hvernig höndla beri veikleika og efla styrkleika. Á námskeiðinu er lyklum miðlað til að loka dyrum og opna aðrar til betri vegar. Það er gott að hætta því sem truflar og byrja á því sem veitir kraft. Að lifa án áfengis er betri gjöf en oft er talið og líkur á jákvæðum samskiptum aukast til muna. Þetta er lærdómsríkt ferli sem ber árangur en án sjálfsaga og taumhalds verður ekkert frelsi.

Markmið

• Auka við lífsgæðin
• Endurskoða neyslumynstur
• Æfa vínlausan lífsstíl
• Styrkja heilbrigt líferni
• Velja lífsgildin sem koma við sögu
• Finna verkfærin sem duga

Lýsing

Námskeiðið hjálpar fólki til að öðlast nýtt og betra líf með endurskoðun á lífsstíl. Kennarar beita gleðilegri og jákvæðri nálgun á verkefnið. Þátttakendur hittast í sex skipti á jafnmörgum vikum. Skuldbindingin felst í því að lifa vínlausum lífsstíl í sex vikur, og rannsaka hvaða áhrif það hefur á sál og líkama og samskipti í lífi og starfi. Þau lífsgildi sem koma helst við sögu eru: góðvild, frelsi, sjálfsagi, gjöf, auðmýkt, hamingja og hugrekki. Að breyta sjálfum sér felst í frelsun frá því sem truflar okkur og að öðlast kraft til að vinna verkið sem gjöfin innra með hverjum og einum býður upp á.

Ávinningur þinn

• Lærir aðferðir við að efla styrkleika þína
• Betri svefn, sköpun og lífsgæði, meiri tími
• Setur þér nýjar lífsreglur og velur lífsgildi
• Stuðningur við að breyta um lífsstíl
• Færð bókina Vending – vínlaus lífsstíll að gjöf
• Skerpir ályktunarhæfni, bætir minnið þitt
• Auknar líkur á því að þú náir markmiðum þínum

Fyrir hverja?

Fyrir þau sem hafa áhuga á að kynnast vínlausum lífsstíl á uppbyggjandi hátt, vilja prófa að sleppa áfengi í nokkrar vikur og búa þannig til tækifæri til að breyta neyslumynstri sínu, vilja fjölga gleðistundum, telja sig drekka áfengi aðeins of oft eða aðeins of mikið, geta hætt að drekka af eigin rammleik og opna nýja vídd í tilverunni.

Nánar um kennara

Gunnar Hersveinn hefur verið kennari, blaðamaður og haldið fjölmarga viðburði fyrir almenning, meðal annars heimspekikaffi um gildin í lífinu í níu ár í Gerðubergi (www.lifsgildin.is). Hann er höfundur bókarinnar Vending sem fjallar um persónulega vegferð höfundar í vínlausan lífsstíl.

Margrét Leifsdóttir er arkitekt og heilsumarkþjálfi og hefur haldið fjölmörg námskeið sem miða að því að bæta heilsu fólks (www.facebook.com/margretleifs.is).


SÁÁ styður þau sem vilja kanna hvort þau hafi í raun þróað með sér áfengisvandamál og eru tvístígandi um hvað er best að gera. Námskeiðið Full af lífi! er ekki hluti af meðferð hjá SÁÁ en samtökin mæla með því fyrir öll sem vilja lifa vínlausum lífsstíl.

Skráning á námskeið hér