Heimsókn frá Landspítalanum
SÁÁ fékk nýverið heimsókn frá meðferðareiningu geð- og fíknisjúkdóma (MEKF) á Landspítalanum. Markmið heimsóknarinnar var að efla samtal og samvinnu milli stofnananna, kynna þær breytingar sem orðið hafa hjá SÁÁ frá síðasta fundi og ræða leiðir til að bæta þjónustu við einstaklinga sem glíma bæði við geð- og fíknivanda.
Ingunn Hansdóttir, framkvæmdastjóri meðferðarsviðs SÁÁ, tók á móti gestunum og kynnti starfsemi meðferðarsviðsins, ásamt nýjungum sem snúa að skipulagi og þjónustu. Hún lagði áherslu á mikilvægi samræmdrar þjónustu og reglulegs samtals milli fagfólks sem sinnir þessum hópi sjúklinga, þar sem markmiðið er að tryggja samfellu í meðferð og bætta líðan þeirra sem þurfa á aðstoð beggja aðila að halda.
Í heimsókninni fór einnig fram gagnlegt samtal um verkferla, tilvísanir og hvernig hægt sé að tryggja betra upplýsingaflæði milli SÁÁ og Landspítalans. Báðir aðilar lögðu áherslu á að með auknu samstarfi og skilningi á starfsemi hvors annars megi ná fram betri árangri í meðferð og eftirfylgd.
Hjördís Tryggvadóttir, teymisstjóri á meðferðareiningu geð- og fíknisjúkdóma á Landspítalanum, segir heimsóknina hafa verið bæði ánægjulega og uppbyggilega:
„Það var virkilega gott að hittast, fara yfir mál og ræða sameiginleg markmið. Við vonumst til að þetta verði til þess að styrkja samstarfið enn frekar á komandi misserum.“

Hér má sjá þau sem tóku þátt í fundinum