Fara í efni
10. nóvember 2025

Nám áfengis- og vímuefnaráðgjafa heldur áfram að þróast

Nám í áfengis- og vímuefnaráðgjöf heldur áfram að þróast og styrkjast. Eins og flestir vita þá varð stétt áfengis- og vímuefnaráðgjafa til hjá SÁÁ strax á upphafsárum samtakanna. Strax á upphafsárunum var lögð áhersla á að byggja undir þekkingu og fagmennsku þessarar stéttar t.a.m. með því að sækja í ráðstefnur og nám erlendis, fá hingað til lands fólk úr feltinu til að fræða og með því að byggja jafnt og þétt upp nám í skóla SÁÁ. Frá því að stétt áfengis- og vímuefnaráðgjafa fékk formlega löggildingu árið 2006 (reglugerð nr. 697/2006, byggð á lögum nr. 97/1990 um heilbrigðisstarfsmenn), hefur SÁÁ, í samtarfi við FÁR, Félags áfengis- og vímuefnaráðgjafa og ýmsa aðra, leitað leiða til að færa skólann yfir í íslenskt skólakerfi, þannig að stéttin fengi jafna stöðu á við aðrar heilbrigðis- og fagstéttir. Stór áfangi á þeirri vegferð náðist árið 2023, þegar Símenntun Hákskólans á Akureyri tók yfir bóklega kennslu í náminu, en starfsþjálfunin var áfram hjá SÁÁ.

Nú hefur Heilbrigðisráðuneytið gert samning við Háskólann á Akureyri um tíu milljóna króna styrk vegna undirbúnings námsbrautar í áfengis- og vímuefnaráðgjöf við skólann. Námið verður þriggja ára nám til BS-prófs (180 ECTS eininga nám á grunnstigi) og er stefnt að því að kennsla hefjist haustið 2026. Í tilkynningu frá Stjórnarráðinu segir: "Háskólinn á Akureyri hóf undirbúning vegna þessa nýja náms síðastliðið vor í nánu samstarfi við SÁÁ. Gert er ráð fyrir að námið heyri undir hjúkrunarfræðideild skólans og verði bæði fræðilegt og klínískt þannig að það nái jafnframt yfir starfsnám í faginu. Háskólinn mun því jafnframt halda utan um alla verklega þjálfun nemenda á heilbrigðisstofnunum. Í hinu nýja námi verður einnig fjallað um spilafíkn."

Einnig segir í tilkynningunni: "SÁÁ hóf á sínum tíma kennslu og þjálfun fyrir áfengis- og vímuefnaráðgjafa og hefur stéttin verið löggilt um árabil. Frá árinu 2023 hefur Símenntun Háskólans á Akureyri séð um bóklega hluta námsins en verklegi hluti þess fer enn fram á heilbrigðisstofnunum SÁÁ. Það er ekki síst SÁÁ sem hefur bent á þörf fyrir að námið fari inn í formlega skólakerfið hér á landi og er þessi breyting eitt af lokaskrefunum í þeirri þróun sem heilbrigðisráðuneytið hefur lagt áherslu á, að allt nám til starfsleyfis löggiltra heilbrigðisstétta fari fram hjá formlegum menntastofnunum."

Þessar gleðilegu fréttir ríma mjög vel við hugmyndir SÁÁ, sem lengi hefur bent á mikilvægi þess að námið fari inn í formlega skólakerfið á Íslandi, þannig að þessi breyting er eitt af lokaskrefunum í þessari vegferð. Anna Hildur Guðmundsdóttir, formaður SÁÁ, lagði áherslu á að áfengis- og vímuefnaráðgjafar væru meginstoð í nútíma fíknmeðferð og „....mikilvægt að sú víðtæka þekking og reynsla sem stéttin býr yfir haldi áfram að þróast og eflast um leið að aðrar stéttir sem koma að meðferð geti leitað á jafningjagrundvelli í faglegan þekkingarbrunn áfengis- og vímuefnaráðgjafa“. Hún sagði að samstarf SÁÁ við Háskólann á Akureyri einkenndist af miklum áhuga og fagmennsku, en HA hefur unnið mjög hratt og skipulega að því að undirbúa þetta nám í samstarfi við SÁÁ.

Þá kemur fram í tilkynningu Stjórnarráðsiins að Heilbrigðisráðherra, Alma D. Möller, fagni mjög frumkvæði HA og haft eftir henni: „Háskólinn hefur fært skýr rök fyrir nauðsyn þess að færa nám áfengis- og vímuefnaráðgjafa upp á háskólastig. Þannig er vægi fagsins styrkt innan heilbrigðiskerfisins og forsendur fyrir áframhaldandi þróun þess til framtíðar. Þetta er mikilvægt því áfengis- og vímuefnameðferð gerir miklar kröfur til sérþekkingar og teymisvinnu fagfólks sem þarf að efla og styrkja til framtíðar“.

 Hér er hlekkur á tilkynningu Stjórnarráðsins.

Hér er hlekkur á heimasíðu Háskólans á Akureyri