„Orðum fylgi gjörðir“
Á vef Heilbrigðisráðuneytisins er ný frétt um að undirritaðir hafa verið þjónustusamningar ráðuneytisins við Krýsuvík og Hlaðgerðakot fyrir árið 2026. Á vefnum kemur fram að í mars á síðasta ári ákvað ríkisstjórnin að auka fjármagn í áfengis- og fíknimeðferðir, ákvörðun sem kom strax til framkvæmda á síðasta ári og leiddi m.a. til sumaropnunar göngudeildar og Víkur hjá SÁÁ. Þessi ákvörðun var svo útfærð í fjárlögum 2026, þar sem er veitt er auknu fjármagni til meðferðar vegna fíknivanda í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Það þýddi nýjan heildarsamning við SÁÁ, sem undirritaður var í desember 2026 og gerir um leið kleift að efla meðferðina í Krýsuvík og Hlaðgerðarkoti. Samanlegt fjármagn til Krýsuvíkur og Hlaðgerðarkots verður rúmar 550 m.kr. á þessu ári sem er nærri 20% aukning frá síðasta ári. Sama dag og SÁÁ og SÍ skrifuðu undir nýjan samning sín á milli var einnig skrifað undir samning við Rauða krossinn um Frú Ragnheiði þar sem fjármagn til Frú Ragnheiðar var aukið úr um það bil 23 milljónum króna upp í 50 milljónir króna á ári.
Heilbrigðisráðuneytið hefur lagt áherslu á að bæði Krýsuvík og Hlaðgerðarkot öðlist staðfestingu embættis landlæknis til reksturs heilbrigðisþjónustu og uppfylli þar með faglegar kröfur í samræmi við ákvæði heilbrigðislöggjafarinnar, líkt og kveðið er á um í reglugerð 786/2007 um eftirlit landlæknis með rekstri heilbrigðisþjónustu og faglegar lágmarkskröfur. Að þessu er stefnt og er það undirstrikað í uppfærðum þjónustusamningum fyrir árið 2026.
Svo segir í frétt ráðuneytisins: „Alma D. Möller heilbrigðisráðherra segir lengi hafa verið ljóst að stórefla þyrfti áfengis- og vímuefnameðferð hér á landi og hún hafi gert það að forgangsverkefni sínu þegar hún tók við embætti heilbrigðisráðherra. „Ég legg áherslu á að orðum fylgi gjörðir og ríkisstjórnin sýndi það í verki með því að veita 350 milljóna króna viðbótarframlag til málaflokksins strax á nýliðnu ári. Við höldum áfram á þessari braut. Með auknu fjármagni á þessu ári og markvissri vinnu við að efla meðferðarúrræði, stytta biðlista og bæta meðferðarstarf náum við árangri, fyrir einstaklinga og fyrir samfélagið allt“.“
Hér er hlekkur á frétt Heilbrigðisráðuneytisins um ofangreint.
Hér er hlekkur á frétt Heilbrigiðisráðuneytisins um aukið fjármagn til áfengis- og fíknimeðferðar.
Hér er hlekkur á frétt Heilbrigðisráðuneytisins um undirritun samnings SÁÁ og SÍ
Hér er hlekkur á frétt Heilbrigðisráðuneytisins um aukið fjármagn til Frú Ragnheiðar