Fara í efni
16. maí 2025

Ragnheiður Hulda forstjóri SÁÁ fær Hvatningarstyrk Fíh

Á aðalfundi Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga var tilkynnt að stjórn Fíh hefði ákveðið að veita Ragnheiði Huldu Friðriksdóttur forstjóra SÁÁ, hvatningarstyrk fyrir störf hennar á svið hjúkrunar og heilbrigðisþjónustu.

Það var Vilborg Ingólfsdóttir hjúkrunarfræðingur sem tilnefndi Ragnheiði til styrksins en í texta með tilnefningunni segir:

"Ragnheiður Hulda Friðriksdóttir hefur sinnt leiðtogahlutverki í íslenskri heilbrigðisþjónustu um árabil þar sem hún hefur lagt sérstaka áherslu á skýra sýn, hugrekki og fagmennsku. Það sem einkennir Ragnheiði Huldu er þessi rólega staðfesta. Henni er lýst sem leiðtoga sem krefst gæða og ábyrgðar – en jafnframt manneskju sem hlustar, heldur áfram og lætur engan sitja eftir. Það að fá hana að verkefnum sem tengjast jaðarsettum hópum hefur leitt til breytinga á viðhorfum til þeirra og stöðu þeirra í samfélaginu. Hún trúir á að meðferð eigi að vera einstaklingsmiðuð og að virðing, velferð og von séu grunnstoðir allrar þjónustu. Hún nálgast skjólstæðinga af mannúð og meðvitund um félagslegt samhengi þeirra. Ragnheiður Hulda hefur lyft grettistaki í þjónustu SÁÁ með því að skýra hlutverk, efla fagmennsku, styrkja ábyrgðarskiptingu, byggja upp virkt gæðakerfi og koma af stað raunverulegum umbótum í þjónustunni með gildi og hugmyndafræði hjúkrunar að leiðarljósi. Hún hefur jafnframt stuðlað að fjölbreyttari þjónustu með aukinni áherslu á göngudeildarmeðferð, fjölbreyttari meðferðarleiðum og auknu aðgengi að meðferð við ópíóíðafíkn. Eitt skýrt dæmi um styrkleika Ragnheiðar Huldu eru viðbrögð hennar þegar SÁÁ tók við börnum frá Stuðlum, með engum fyrirvara, þegar húsnæðið þar varð eldi að bráð. Ragnheiður Hulda er táknmynd fyrir samviskusama og seiga forystu í þjónustu við einn viðkvæmasta hóp samfélagsins. Með skýra framtíðarsýn, faglega nálgun og áherslu á velferð skjólstæðinga hefur Ragnheiður Hulda markað skýra stefnu inn í nýja tíma í þjónustu og þróun meðferðarúrræða við fíknisjúkdómum."

Ragnheiður sagðist vera djúpt snortin og þakklát fyrir þessa viðurkenningu og þetta væri mikil viðurkenning, ekki bara fyrir þau störf sem hún hefði innt af hendi heldur ekki síður árangur sem byggði á traustu samstafri við öflugt og samhent fagfólk í gegnum árin í þeim verkefnum sem henni hefði verið treyst fyrir. Til að endurgjalda traustið og stuðninginn sem fólk hefði sýnt henni ákvað hún að láta styrkinn renna til Starfsmannafélags SÁÁ, þannig að allt fólkið sem raunverulega lyftir grettistaki á hverjum degi með vinnu sinni að þeirri þjónustu, umbótum og breytingum, hún var tilnefnd fyrir, njóti hans.

Myndin er tekin eftir styrkveitninguna en auk Ragnheiðar eru á myndinni Vilborg Ingólfsdóttir hjúkrunarfræðingur sem tilnefndi Ragnheiði og Theodóra Gunnarsdóttir hjúkrunarfræðingur en hún er einnig móðir Ragnheiðar.

Til hamingju Ragnheiður og takk.