SÁÁ og Íþróttafræðideild HR skrifa undir samstarfssamning
SÁÁ og Íþróttafræðideild Háskólans í Reykjavík hafa skrifað undir samstarfssamning sem markar upphaf nýrrar og spennandi samvinnu.
Samstarfið felur meðal annars í sér að nemendur deildarinnar fái tækifæri til að kynnast starfi SÁÁ í verki og leggja sitt af mörkum í þágu heilbrigðis og bata fólks sem glímir við fíknivanda. Jafnframt munu samtökin njóta þekkingar og nýsköpunar nemenda og kennara HR á sviði íþrótta og heilsu.
„Við fögnum þessu samstarfi og teljum það bæði styrkja starfsemi SÁÁ og skapa verðmæt tækifæri fyrir nemendur. Heilsuefling og hreyfing er mikilvægur hluti af bataferli okkar skjólstæðinga og með þessu samstarfi getum við þróað það starf enn frekar,“ segir Anna Hildur Guðmundsdóttir formaður SÁÁ.
Báðir aðilar hlakka til að sjá samstarfið vaxa og skila árangri til hagsbóta fyrir skjólstæðinga, nemendur og samfélagið allt.
Anna Hildur Guðmundsdóttir, formaður SÁÁ, og Hafrún Kristjánsdóttir, deildarforseti íþróttafræðideildar, undirrita samninginn. Mynd: Háskólinn í Reykjavík.
Ingunn Hansdóttir, framkvæmdastjóri sálfélagslegrar meðferðar hjá SÁÁ, og Anna Hildur Guðmundsdóttir, formaður SÁÁ, fyrir utan Háskólann í Reykjavík eftir undirritun samstarfssamnings.