SÁÁ vekur eftirtekt á forvarnarverkefninu „Verum klár"
Reykjavíkurborg hefur sett af stað metnaðarfulla vitundarvakningu og forvarnarverkefni undir yfirskriftinni „Verum klár“, sem beinist að því að efla vitund og þekkingu foreldra og forráðafólks um vímuefnanotkun ungmenna. SÁÁ fagnar þessu framtaki og styður það heilshugar.
Verkefnið „Verum klár“ byggir á því sem rannsóknir og reynsla sýna að skiptir mestu máli í forvarnarstarfi: virk þátttaka foreldra, góð tengsl innan fjölskyldunnar og sameiginleg ábyrgð samfélagsins á velferð barna og unglinga. Reykjavíkurborg leggur áherslu á að bjóða foreldrum og aðstandendum stuðning, fræðslu og samtalsvettvang til að efla þá í uppeldishlutverki sínu.
„Við hjá SÁÁ höfum í áratugi séð afleiðingar af vímuefnaneyslu og vitum að snemmtæk íhlutun og öflugar forvarnir eru lykillinn að heilbrigðari framtíð barna og ungmenna. Við fögnum því að Reykjavíkurborg stígur fram með þessari skemmtilegu vitundarvakningu til að styðja við foreldra – sem eru ein helsta fyrirmynd og áhrifavaldur í lífi barna sinna,“ segir Anna Hildur formaður SÁÁ
Lykilatriði verkefnisins:
-
Að styðja foreldra í að ræða við börn sín um vímuefni og aðra áhættuhegðun.
-
Að hvetja til samstöðu meðal foreldra og styrkja foreldrahópa.
-
Að veita fræðslu, hagnýt ráð og samtalsverkfæri í gegnum skólakerfið og samfélagsmiðla.
-
Að skapa öruggt umhverfi fyrir börn og unglinga með sameiginlegu átaki fjölskyldu, skóla og samfélags.
Stórt og mikilvægt skref í rétta átt
SÁÁ telur „Verum klár“ vera mikilvægt skref í átt að víðtækari og markvissari forvörnum á Íslandi. Það að setja fókus á foreldra og samfélagslega ábyrgð er í takt við alþjóðlega þekkingu á því hvað virkar til að koma í veg fyrir vímuefnavanda síðar á lífsleiðinni.
Við hvetjum alla til að kynna sér verkefnið og taka virkan þátt, því forvarnir eru ekki einskiptisátak, heldur samfelld vinna sem byggir á trausti, upplýsingum og stuðningi.