Fara í efni

Sálfræðiþjónusta barna

Sálfræðiþjónusta barna er fyrir börn á aldrinum 8-18 ára sem eiga foreldra eða aðra nána aðstandendur með fíknivanda.

Sálfræðingar SÁÁ veita þjónustuna

Sálfræðiþjónusta barna er fyrir börn á aldrinum 8-18 ára sem eiga foreldra eða aðra nána aðstandendur með fíknivanda.

Viðtölin fara fram í Von, Efstaleiti 7, í Reykjavík.

Tímapantanir eru í síma 530 7600 á skrifstofutíma eða með því að fylla út almenna umsókn hér á síðunni. Sérstakt eyðublað er fyrir tilvísun fagaðila.

Biðtími eftir þjónustu er breytilegur og hægt er að nálgast upplýsingar um hann hjá riturum göngudeildar.

Afbóka þarf viðtalstíma með sólarhrings fyrirvara með því að senda tölvupóst á barn@saa.is annars verður rukkað hálft viðtalsgjald.

Viðtöl

Hvert barn fær vikuleg einstaklingsviðtöl en fjöldi viðtala er metinn út frá hverju máli fyrir sig. Foreldri eða annar aðstandandi kemur með barni í fyrsta viðtal.

Fjarþjónusta

Boðið er upp á fjarviðtöl fyrir þau börn sem búa utan Höfuðborgarsvæðisins. Í fyrsta viðtali hittir barn sálfræðing á staðnum (Göngudeild SÁÁ í Reykjavík eða á Akureyri) og í kjölfarið fara viðtölin fram í gegnum fjarfundarbúnað.

Foreldraviðtal

Foreldrar geta fengið ráðgjöf í viðtali ef barn hefur ekki möguleika á að sækja viðtöl sjálft eða er ekki tilbúið til þess. Einnig geta foreldrar óskað eftir viðtali á meðan barn er í þjónustu.

Fjármögnun

Sálfræðiþjónustan er að miklu leyti fjármögnuð með styrkjum frá samfélaginu, til dæmis tekjum frá álfasölu SÁÁ og valgreiðsluseðlum sem sendir eru í heimabanka fólks. Reykjavíkurborg, Félagsmálaráðuneytið og Lýðheilsusjóður hafa einnig veitt styrki til að halda þjónustunni úti.

 

Almenn umsókn

Hér er að finna almennt umsóknareyðublað fyrir Sálfræðisþjónustu barna.

Útfylla skal rafrænt í alla viðeigandi reiti eyðublaðsins. Prentið að því loknu útfyllta tilvísun, undirritið og sendið ásamt öðrum fylgigögnum í umslagi stílað á:

SÁÁ – Sálfræðiþjónusta barna, Efstaleiti 7, 103 Reykjavík.

 

Tilvísun fagaðila

Hér er að finna tilvísunarblað fagaðila fyrir Sálfræðisþjónustu barna.

Útfylla skal rafrænt í alla viðeigandi reiti eyðublaðsins. Prentið að því loknu útfyllta tilvísun, undirritið og sendið ásamt öðrum fylgigögnum í umslagi stílað á:

SÁÁ – Sálfræðiþjónusta barna, Efstaleiti 7, 103 Reykjavík.

 

 

 

 

 

 

 

Markmið

Markmiðið með sálfræðiþjónustu barna er að veita börnum opnun og viðurkenningu á stöðu sinni og aðstæðum í fjölskyldu þar sem áfengis- eða vímuefnavandi er til staðar, að hjálpa þeim að skilja betur eigin aðstæður og aðstæður foreldranna og aðstoða þau við að greina á milli fíknsjúkdómsins og manneskjunnar sem þjáist af honum.

Með því að aðstoða barnið við að rjúfa þann þagnarmúr og þá einangrun sem einkennir oft börn í þessum aðstæðum er hægt að bæta líðan og velferð barnsins og auka um leið skilning þess á sjúkdómi foreldranna og afleiðingum hans. Með því getur barnið betur áttað sig á stöðu foreldranna og getur líka betur tekist á við og unnið úr eigin tilfinningalegri vanlíðan og styrkt sjálfsmynd sína.

Reyndist mikill styrkur

Það má segja að ákveðið mat á þjónustunni liggi fyrir af hálfu notendanna sjálfra, barnanna. Það birtist í skýrslu sem unnin var á vegum Umboðsmanns barna og kynnt var vorið 2014. Þar var um að ræða “sérfræðihóp” fimm barna sem nýtt höfðu sér sálfræðiþjónustuna og tóku þátt í tilraunaverkefni Umboðsmanns barna. Markmiðið var að ná fram sjónarmiðum barnanna sjálfra til þess hvernig það er að eiga foreldri sem á við áfengis- og vímuefnavandamál að stríða, hvers konar aðstoð hefur reynst þeim vel og hvaða þjónustu þau þurfi helst á að halda.

Í skýrslu hópsins kom fram að öll börnin sem tóku þátt í starfinu voru sammála um að sú sálfræðiaðstoð og ráðgjöf sem þau fengu frá SÁÁ hafi hjálpað þeim og breytt miklu fyrir þau og veitt þeim styrk. “Fræðslan skipti þar miklu máli og fannst þeim erfitt að hugsa til þess hvernig það hefði verið ef hún hefði ekki komið til,” segir í skýrslu hópsins. “Alkóhólismi er ekki eitthvað til að skammast sín fyrir. Þessi aðstoð reyndist þeim mikill styrkur.” Skýrsluna má lesa hér á síðunni.

Algengar spurningar frá börnum og unglingum

Hvað eru áfengi og vímuefni?

Áfengi eru drykkir eins og bjór eða vín. Vímuefni eru lyf eða önnur efni sem hafa áhrif á hegðun og líðan fólks. Bæði áfengi og vímuefni breyta fólki á meðan það er verið að nota það.

Hvað er fíknsjúkdómur?

Fíknsjúkdómur er sjúkdómur þar sem fólk hefur misst stjórn á áfengis- og/eða vímuefnaneyslu sinni og getur yfirleitt ekki hætt nema með aðstoð fagaðila. Mikilvægt að minna sig á það að það er enginn sem ætlar að fá sjúkdóm.

Af hverju fær fólk fíknsjúkdóm?

Fólk getur þróað með sér fíknsjúkdóm af ýmsum ástæðum. Sumir byrja á því að drekka lítið og drekka síðan meira og meira með tímanum og geta ekki hætt. Einhverjir drekka eða nota vímuefni til þess að róa sig niður eða gleyma áhyggjum yfir öðrum hlutum en enda svo á því að þurfa áfengi og vímuefni til þess að líða venjulega.

Hverjir fá fíknsjúkdóm?

Það getur hver sem er fengið fíknsjúkdóm. Það skiptir ekki máli hvort fólk er ungt, gamalt, ríkt, fátækt, af hvaða kyni eða kynþætti fólk er. Það sem fólk á sameiginlegt er að það er búið að missa stjórn á áfengis- og/eða vímuefnaneyslu sinni. Það er þó mikilvægt fyrir þig að vita að þú getur ekki fengið fíknsjúkdóm ef þú byrjar aldrei að drekka áfengi eða nota vímuefni.

Er til lækning við fíknsjúkdómi?

Fíknsjúkdómur er ólæknandi sjúkdómur en góðu fréttirnar eru þær að það er hægt að meðhöndla hann. Það þýðir að fólk getur fengið aðstoð við að hætta að drekka eða nota vímuefni. Ef fólk hættir í neyslu þá lifir það oftast heilbrigðu og hamingjusömu lífi.

Hvað eru mörg börn á Íslandi sem eiga foreldri með fíknsjúkdóm?

Þú ert ekki ein/n! Það eru mörg önnur börn á Íslandi sem eiga foreldri með fíknsjúkdóm eða um það bil 16 – 20 þúsund börn. Það eru álíka margir og búa á Akureyri. Það eru örugglega nokkrir í bekknum þínum eða einhverjir í hverfinu þínu sem eiga foreldra með fíknsjúkdóm.

Hvernig get ég látið foreldra mína hætta að drekka áfengi eða nota vímuefni?

Þegar fólk er með fíknivanda hefur það misst stjórn á neyslu sinni og stundum áttar fólk sig ekki á því að það er með vanda. Til þess að geta hætt að drekka áfengi eða nota vímuefni þá þarf fólk að viðurkenna vandann og það þarf að vilja hætta. Yfirleitt þarf fólk aðstoð fagaðila til þess að hætta, t.d. áfengis- og vímuefnaráðgjafa, lækna, sálfræðinga.

Þú getur ekki stjórnað neyslu foreldra þinna og hegðun þeirra er ekki þér að kenna. Það sem þú getur gert er að hugsa um sjálfa/n þig og gert eitthvað sem lætur þér líða vel.

Hvað get ég gert til að láta mér líða betur?

Talaðu við einhvern sem þú treystir um vandann og hvernig þér líður. Það getur verið kennari, vinur/vinkona, þjálfari, amma/afi, námsráðgjafi eða einhver annar sem þú treystir. Mikilvægt er að tala um hvernig þér líður svo þú getir fengið þá aðstoð sem er til staðar. Börn á aldrinum 8-18 ára geta fengið aðstoð hjá sálfræðingum SÁÁ.