Heimspekikaffi um vínlausan lífsstíl
Hvernig tileinkum við okkur vínlausan lífsstíl? Hver eru helstu lífsgildin og hvaða aðferðir duga best til að ná þessu markmiði? Gunnar Hersveinn heimspekingur og Guðrún Snorradóttir stjórnendaráðgjafi bjóða upp á heimspekikaffi um kosti þess að tileinka sér breyta um lífsstíl til að bæta lífið. Viðburðurinn er öllum opinn.
Að drekka áfengi aðeins of oft eða aðeins of mikið getur orðið hindrun og truflað alls konar markmið og fyrirætlanir í lífi og starfi. Betra er að rækta gjafir lífsins án hindrana og kosti þess að tileinka sér vínlausan lífsstíl. Hvernig gerum við það?
Tilefni þessa viðburðar fyrir almenning er „Edrúar – febrúar“ hjá SÁÁ. Gunnar og Guðrún munu miðla efni fyrir fólk sem vill betrumbæta líf sitt, velja sér gildi, efla kosti og dempa ókosti. Þau munu ræða vendipunkta, verkfæri, kraft og lífsgildi til að stíga skrefin. Efnið er um sjálfsaga og vellíðan, hvernig höndla beri veikleika og efla styrkleika.
Gunnar Hersveinn heimspekingur er höfundur metsölubókarinnar Gæfuspor – gildin í lífinu, þar sem fjallað er á skýran og gagnlegan hátt um helstu lífsgildin. Bókin hans Vending – vínlaus lífsstíll fjallar um hvað þarf til þegar venda á kvæði sínu í kross. Gunnar var með vinsælt og fjölsótt heimspekikaffi hjá Borgarbókasafni Reykjavíkur um árabil. https://www.lifsgildin.is/
Guðrún Snorradóttir, stjórnendaþjálfi, hefur víðtæka reynslu af því að nota verkfæri markþjálfunar og jákvæðrar sálfræði, bæði hér heima og erlendis. Hún er lifandi og skemmtilegur fyrirlesari og hefur sérstakt lag á að hrífa hópinn með sér og vinna traust þeirra sem til hennar leita. Guðrún leggur áherslur á þrautseigju, tilfinningagreind, nýtingu styrkleika, leiðir til að skapa aukið traust og sálrænt öryggi ásamt nýtingu markþjálfunar við þjónustu og í margvíslegum samtölum við starfsmenn. https://www.gudrunsnorra.com/
Heimspekikaffið fer þannig fram að Gunnar og Guðrún eiga samtal um helstu aðferðir og lífsgildi sem koma við sögu þegar skipt er um lífsstíl og um áhrif áfengis á hug, heila og heilsu og opna svo fyrir samtal við gesti.