Fara í efni
16. desember 2016
Greinar

42,78% líkur á að sonur sjúklings fari í meðferð

Viðtalið sem hér fer á eftir birtist fyrst í SÁÁ blaðinu 1. tbl. 2011. Þar fjallar Þórarinn Tyrfingsson um niðurstöður tímamótarannsóknar SÁÁ og Íslenskrar erfðagreiningar um fjölskyldulægni áfengis- og vímuefnafíknar í tilefni af því að ritrýnd grein um niðurstöðurnar hafði þá birst í virtu bandarísku vísindatímariti:

„Þarna fáum við staðfestingu á því sem við héldum, en fjölskyldulægnin er jafnvel enn meiri en mig hafði grunað,” segir Þórarinn Tyrfingsson, yfirlæknir á Vogi, um niðurstöður viðamikillar rannsóknar sem SÁÁ stóð fyrir ásamt Íslenskri erfðagreiningu og bandarískum vísindamönnum á fjölskyldulægni alkóhólisma: „Maður hefur aldrei séð þetta svona sterkt fyrr.”

Rannsóknin byggðist annars vegar á upplýsingum um þann hóp 19.000 sjúklinga sem hefur laggst inn á Vog síðustu þrjátíu ár og hins vegar á ættfræðiupplýsingum Íslenskrar erfðagreiningar.

Á grundvelli þessara gagna voru fjölskyldutengsl sjúklinga könnuð allt aftur í fimmta ættlið.

Fjallað hefur verið um niðurstöður rannsóknarinnar í bandaríska vísindatímaritinu Annals of the New York Academy of Sciences. Auk Þórarins eru höfundar greinarinnar þau Þorgeir E. Þorgeirsson, Frank Geller, Valgerður Rúnarsdóttir, Ingunn Hansdóttir, Gyða Bjornsdottir, Anna K. Wiste, Guðrún A. Jónsdóttir, Hreinn Stefánsson, Jeffrey R. Gulcher, Högni Óskarsson, Daníel Guðbjartsson og Kári Stefánsson.

„Fjölskyldulægni þýðir að sjúkdómurinn eltir ákveðnar fjölskyldur,” útskýrir Þórarinn.

Ekki bara alþýðuspeki

Það hefur löngum verið á almannavitorði hér á landi að alkóhólismi – líkt og margir aðrir sjúkdómar – leggist misjafnlega þungt á fjölskyldur. Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að þar er ekki bara um alþýðuspeki að ræða heldur vísindalegar staðreyndir.

Niðurstöðurnar eru sláandi. Út frá þeim má álykta að það séu 42,78% líkur á að drengur sem á móður, föður eða systkini, sem hefur leitað sér meðferðar á Vogi, muni sjálfur þurfa á innlögn á sjúkrahúsið að halda einhvern tímann á lífsleiðinni. Fyrir stúlkur eru líkurnar 22,08%.

Fyrir venjulegan Íslending, sem ekki á þessa ættarsögu, eru líkurnar á að þurfa að sækja sér meðferð við alkóhólisma inn á Vog einhvern tímann á lífsleiðinni 18,6% fyrir drengi en 9,6% fyrir stúlkur.

„Miðað við aðra króníska sjúkdóma eins og til dæmis krabbamein er fjölskyldulægnin gríðarlega há. Ég held ég megi segja að það sé mjög sjaldgæft að sjá tölur upp á 2,3 í fyrsta lið,” segir Þórarinn.

„Niðurstöðurnar sýna okkur hins vegar líka að þetta er arfgengt – og mun meira arfgengt en menn héldu,” segir hann.

Þótt fjölskyldulægnin sé meiri en menn hefðu getað látið sér detta í hug og rannsóknin veiti mikilvæg svör og vísbendingar er ekki búið að leysa gátuna um áhrif erfða og umhverfis á áfengis- og vímuefnafíkn segir Þórarinn en fjölskyldulægni er eitt og erfðir annað.

„Það eru til fullt af breytilegum þáttum í gengamenginu sem auka áhættuna á að menn verði fíklar.” Þar spili inn í fjölmargir erfðaþættir. Þess sé ekki að vænta að einhver ein rannsókn svari slíkum spurningum í eitt skipti fyrir öll.

Óvenjulega mikil fjölskyldulægni

Grafið sem birt er hér til hliðar sýnir hvernig fjölskyldulægnin birtist í sérstökum stuðli sem notaður er við útreikninga á fjölskyldulægni sjúkdóma (relative risk, RR). Hæsta súlan sýnir stuðulinn 2,3 fyrir fyrsta lið, þ.e. foreldra eða systkini, og hinar súlurnar frá öðrum til fimmta liðar. Eftir því sem skyldleikinn minnkar lækka tölurnar og súlurnar til marks um minnkandi fylgni. Í fimmta lið er talan 1,1 til marks um það að ákveðin fylgni sé enn til staðar fimm ættliðum frá sameiginlegum forföður eða formóður.

Sú lína sem hægt er að draga mili stöplanna í ritinu eftir því sem skyldleikinn verður minni og fjölskyldulægnin mælist veikari styður enn frekar við þá túlkun niðurstaðanna að um arfgengan sjúkdóm sé að ræða, að sögn Þórarins.

„Stöplaritið lítur út eins og það gerir þegar um arfgenga sjúkdóma er að ræða,” segir hann. Erfðaþættirnir sem hafa áhrif á alkóhólisma og fíkn séu hins vegar áreiðanlega mjög margir og margir þeirra séu fágætir.

Kallar á nýtt úrræði

Hvaða þýðingu hafa þessar niðurstöð- ur; hvaða viðbrögð kalla þær á?

„Þetta þýðir að við höfum fundið áhættuhóp, fólk sem hefur ríka ættarsögu,” segir Þórarinn. „Ef foreldrar hafa þurft á meðferð að halda nýverið þá hlýtur barnið að vera í sérstökum áhættuhóp.”

„Vegna þess hvað þetta er rosaleg fjölskyldulægni erum við knúin til að bregðast við á rökréttan hátt,” segir Þórarinn, „og vinna með þá sem eru með mikla fjölskyldusögu og eru á ákveðnum aldri. Við þurfum að fara inn í þann hóp og leðrétta með sálfræðilegri aðstoð áhættuþætti, sem við teljum vera til staðar, eins og tilfinningaleg vandamál eða hegðunarvandamál.”

SÁÁ hefur þegar þróað sérstakt úrræði til að nálgast þennan hóp. Þórarinn segir að þegar fram í sækir þurfi síðan að rannsaka þann árangur sem úrræðið skilar.

Kynjamunur og áhættuhegðun

Hvaða skýringar eru á þeim gríðarlega kynjamun sem kemur fram í niðurstöðunum eins og sagt var frá að ofan varðandi mismunandi líkur kynjanna á því að þróa með sér áfengis- og vímuefnafíkn?

„Það hefur í raun enginn skýringu á því,” segir Þórarinn. „Sumir segja að skýringin gæti verið sú að við eigum eftir að fá inn eitthvað af kvennavandamálinu. En við höfum búið við svipað mynstur í því í nokkurn tíma og þá hefði bilið átt að minnka meira en það hefur gert. Ég held að þetta sé og verði að vissu leyti kynbundið. Það sé ákveðinn munur á konum og körlum sem er líffræðilegur og gerir það að verkum að konur eru oft gætnari heldur en karlar.”

Hann bendir á að sá kynjamunur hafi verið í umræðunni hérlendis um hrunadansinn á síðasta áratug og ýmislegt fleira: „Ég held að það sé hluti af áhættunni á að þróa með sér fíkn að vera ekki nægilega gætinn og leita út á við, sem er líka kostur í mannlegum arfi en galli í þessu tilviki.”

Það er gömul saga og ný að karlmenn taki meiri áhættu en konur; þeir hafi verið landkönnuðir, stríðsmenn og veiðimenn. Rannsóknir sýni aftur og aftur að karlar séu í meiri slysahættu en konur. „Ég held að þetta skýri hlutina að einhverju leyti,” segir Þórarinn.

Fjölskyldulægnin kom einnig gríðarlega sterkt fram fyrir fíknir í kannabis, amfetamín og deyfilyf. Þórarinn segir hins vegar að þar sé um að ræða smærri sjúklingahóp í hverju tilviki sem leitað hafi til sjúkrahússins á skemmri tíma. Þótt fjölskyldulægnin sé mikil í þeim tilvikum, meiri en hvað varðar áfengisfíkn, kunni reiknilíkanið að breytast fyrir hann er tímar líða. Því sé ekki rétt að draga of sterkar ályktanir af niðurstöðunum hvað það varðar.

-PG


Birtist fyrst í SÁÁ blaðinu, 1. tbl. 2012.