Fara í efni
02. maí 2017
Greinar

Heimilisfeður sem drekka einir úti í bílskúr

Hér á eftir fer viðtal sem Ari Brynjólfsson, blaðamaður á Pressunni, tók við Sigurð Gunnsteinsson, áfengis- og vímuefnaráðgjafa, og birtist fyrst á Pressunni. Ari tók einnig myndirnar.

Talið er að rúm 15 til 20 prósent þjóðarinnar glími við áfengisvanda, rúm 6 prósent þjóðarinnar hafa á einhverjum tímapunkti leitað sér hjálpar. Hundruð ef ekki þúsundir heimilisfeðra á Íslandi drekka í laumi og gera sér ekki grein fyrir því að þeir eru virkir alkóhólistar. Oft er um að ræða menn sem gera sér ekki grein fyrir að fjölskylda þeirra, vinir og vinnufélagar vita að þeir eigi við áfengisvandamál að stríða og halda áfram í gengum lífið ómeðvitaðir um hvað þeir eru að gera sjálfum sér og sínum nánustu. Blaðamaður Pressunnar settist niður með Sigurði Gunnsteinssyni, ráðgjafa hjá SÁÁ á Vogi, en í hartnær fjörtíu ár hefur hann aðstoðað alkóhólista í leit þeirra að bata.

Sigurður segir að það séu tvenns konar menn sem komnir eru yfir miðjan aldur sem leiti sér hjálpar. Annars vegar menn sem komi oft og hafa lengi vitað að þeir eigi við vanda að stríða.

„Svo er það hinn hópurinn sem er að koma til meðferðar í fyrsta sinn á efri árum. Það gerist oft þegar það verða breytingar í tilveru manna sem hafa alltaf notað áfengi. Síðan kemur að einhverjum tímamótum, þeir hætta að vinna, þeir verða veikir, maki þeirra verður veikur, eitthvað sem kreppir skóinn og þá gerist það stundum að menn auka áfengisneysluna og missa stjórn og þurfa að leita sér hjálpar.”

Þegar sú staða er komin upp fer það eftir hverjum og einum hvernig og hvar viðkomandi leitar sér hjálpar. Til dæmis hafa sumir leitað til heimilislæknis, aðrir til prests eða jafnvel vinar sem þeir treysta. Aðrir leita beint til ráðgjafa SÁÁ í greiningu á vandanum. Sigurður segir að greining á áfengisvanda sé ekki sjálfkrafa ávísun á meðferð. Stundum er einfaldlega nóg að draga úr áfengisneyslu og setja takmörk, en stundum kalli vandinn einfaldlega á meðferð, eftirmeðferð og varanlegt bindindi. Sumir veigra sér við að fara í meðferð vegna ótta við að setja líf sitt úr skorðum, aðspurður um viðbrögð vinnuveitenda við bón starfsmanns um að fara í meðferð segir Sigurður:

„Það eru alltaf til undantekningar en þetta er aðallega bara í hausnum á mönnum. Það sakar ekki að hringja í vinnuveitanda og segja honum einfaldlega „ég þarf að fara í meðferð“, þeir taka því yfirleitt vel því þeir fá miklu betri starfskraft til baka.”

Vandamál sem áður var falið á bak við gardínur heima og enginn mátti vita af

Alkóhólismi leggst ekki einvörðungu á karla, því fer fjarri, og er Sigurður mjög stoltur af meðferðarúrræðum sem SÁÁ hefur boðið konum upp á frá árinu 1995 og hefur konum fjölgað jafn og þétt með árunum sem leita sér hjálpar vegna fíknivanda.

„Það er algengara meðal kvenna að þær noti lyf með áfengi sem gerir það að verkum að það þarf lengri afeitrun. Aftur á móti eru þær iðulega mjög samviskusamar í meðferðinni og standa sig mjög vel.“

Þegar við lítum á fjölskyldur þar sem annað foreldrið er virkur alkóhólisti, er það ekki yfirleitt fjölskyldufaðirinn?

„Það er algengast, birtingarmyndin er þannig. Þegar ég lít aftur í tímann, fyrstu tvö árin, var fjöldi kvenna sem fór í meðferð 10 prósent, síðan var fjöldinn kominn upp í 20 prósent. Í langan tíma hefur hlutfall kvenna sem fer í meðferð verið stöðugt í 30+ prósentum en það segir ekki allt um vanda kvenna í þjóðfélaginu.”

Sigurður segir að þegar litið sé til baka, fjörutíu ár, þá sé mun minna mál að fara í meðferð í dag en það var á áttunda- og níunda áratugnum. „Þó að fordómar lifi enn, þá voru meiri fordómar, meiri fáfræði og minni þekking. Fram að þeim tíma fóru konur ekkert í meðferð, konur voru bara ekki þennann vanda Og ef þær voru ofdrykkjukonur þá voru þær oft sendar úr landi. Þegar þær byrjuðu að koma til okkar þá urðu til fordæmi, þá fór boltinn að rúlla. Það skiptir miklu máli í þessum sjúkdómi, hvernig svo sem stendur á því, að þessi sjúkdómur hafi andlit. Þetta sýndi sig best þegar SÁÁ voru að hefja göngu sína 1977 þá stigu þjóðþekktir menn fram og sögðu „ég er alkóhólisti og ég er að leita að bata“. Það varð sprenging í þjóðfélaginu þegar þetta gerðist, hafði aldrei gerst áður.“

„Það er alkóhólismi“

Hvernig myndir þú útskýra alkóhólisma fyrir fólki sem þekkir ekki þann sjúkdóm?

„Fíknisjúkdómar eru í dag skilgreindir sem fjölþættur heilasjúkdómur og sem slíkur er hann líkamlegur .félagslegur og sálrænn . Hann gerir meira því hann fer út fyrir einstaklinginn sem er í neyslunni. Sjúkdómurinn nær til þeirra sem standa sjúklingnum næst og aðstandendur fá ákveðin einkenni. Fólk fer í afneitun, hegðun þeirra breytist, viðhorf þeirra breytist og hugsunarhátturinn breytist með því að búa með einstaklingi sem er háður áfengi eða öðrum vímuefnum.“

Það er algengur misskilningur að fíkn í áfengi lýsi sér einungis sem dagleg áfengisneysla, það er einungis ein tegund af neyslumynstri. Einstaklingur getur sleppt því að drekka jafnvel vikum saman en síðan fengið sér mikið magn í einu. Algengt er að sjúklingur feli áfengi á heimilinu, fjölmörg dæmi eru um að fjölskyldufeður séu með sérstakar áfengisbirgðir úti í bílskúr, í geymslunni og safni jafnvel birgðum. „Þetta er birtingarmynd varnarkerfis alkóhólistans og hluti af hans afneitun. Hann er ólíkum öðrum. Hann þarf að drekka mikið meira og lengur en aðrir, þannig að það er ekkert skrítið að hann þurfi að hafa birgðir einhvers staðar til að sækja í. Hann á mjög erfitt með að drekka með öðrum því aðrir eru svo lengi að klára úr glasinu á meðan hann er með knýjandi þörf fyrir að drekka mikið Hann er með knýjandi þörf, þess vegna fer hann í þessa feluleiki. Felur áfengi, neitar að hafa drukkið þótt hann sé orðinn mjög ölvaður eða segist hafa fengið sér lítið.“

Hvernig getur það verið að einhver sem felur áfengi og lýgur um eigin neyslu átti sig ekki á þessu?

„Það er alkóhólismi. Svona er sjúkdómurinn. Hann sér ekki sjálfan sig. Svo missir hann minnið og vaknar við að fá upplýsingar frá öðrum um hvað hann var að gera. Það eru oft mikil áföll sem hann upplifir.”

Hvers vegna er þetta ekki eins og hver annar sjúkdómur, þar sem fólk einfaldlega sér einkennin og leitar sér hjálpar?

„Þetta er mjög erfiður sjúkdómur og batahorfur sjúklinga sem eru komnir vel yfir miðjan aldur eru ekki alltaf mjög góðar, því miður, því oft eru þeir búnir að ganga mjög nærri sér. En þessum sjúkdómi, sem hefur verið umdeildur í áratugi, hefur fylgt skömm vegna þeirra fordóma sem að hafa fylgt þessu. Það hefur þótt á einhverjum tíma merki um einhvers konar aumingjaskap eða veikleika, að geta ekki hagað sér eins og maður. Þetta hefur fylgt karlmönnum alveg sérstaklega. Og jafnvel ennþá verra þegar konur eru annarsvegar.”

Það stangast þó oft á við það sjónarmið að karlmaður eigi að vera traustur og geta séð fjölskyldunni farborða, sérstaklega þegar sjúkdómurinn hefur heltekið einstaklinginn. Nefnir Sigurður í því samhengi, menn sem hafa alveg misst stjórn á lífi sínu. Það getur hins vegar haft þau áhrif að menn sem geta haldið saman tiltölulega eðlilegu heimili, með mjólk í ísskápnum og fullgreidda reikninga, geta notað það sem afsökun til að réttlæta óhóflega neyslu, því þeir ná að halda vinnu og eiga fjölskyldu. Þegar eitthvað fer svo úrskeiðis, þá er það svo einhverju öðru um að kenna.

„Enn þann dag í dag, þegar alkóhólistinn missir stjórn á sér vegna drykkju, þá fer hann að skýra það út frá einhverju allt öðru. Hann var þreyttur, stressaður, hafði ekki prófað þessa tegund af áfengi, var að blanda tveimur eða fleiri tegundum, konan var að rífast. Hann er með skýringar á öllu. Þetta er hluti af afneituninni.“

Að rjúfa sjúkt fjölskyldumynstur

Hvaða áhrif getur einn virkur alkóhólisti haft á fjölskyldu?

„Þeir hafa alveg gífurleg áhrif á sitt umhverfi. Það er erfitt að reiða sig á þá, það er aldrei að vita hvað gerist þegar þeir byrja að drekka. Þá hafa þeir enga stjórn og eru nánast ekki til staðar. Hann virkar ekki innan fjölskyldu undir áhrifum og er öllum til ama. Þeir geta ekki staðið við skuldbindingar sína. Ef um er að ræða eina einstaklinginn á heimilinu með bílpróf og eitthvað kemur upp á, þá er ekkert hægt að gera. Lífsgæði þeirra sem standa honum næst verða verri vegna þessa sjúkdóms.”

Ef við ímyndum okkur fjölskyldu, þar sem allir vita að fjölskyldufaðirinn er alkóhólisti en hann er í afneitun, hvað er hægt að gera eða segja í slíkum aðstæðum?

„Þeir sem að standa honum næst hafa mest áhrif á hann. Reynslan segir okkur að margir alkóhólistar koma hingað vegna þess að fjölskyldan hefur komið saman og sagt „hingað og ekki lengra. Við höfum fengið nóg“. Eða fjölskyldan segir „við skulum leita okkur hjálpar“, makinn og kannski fullorðin börn fara og leita sér hjálpar og komast að því hver þessi maður er, sem var eitt sinn öðruvísi en hann er orðinn. Þá fá þau fræðslu og upplýsingar um hvernig þessi sjúkdómur er. Það minnkar reiðina og skömmina og sektartilfinninguna sem aðstandendur hafa stundum.”

Sigurður segir margar mismunandi tilfinningar geta brotist fram þegar fjölskylda brýtur upp sjúkt fjölskyldumynstur. Það er einkennandi fyrir fjölskyldu alkóhólista að loka dyrum og einangrast með leyndarmálið sem allir vita um, en enginn vill ræða upphátt

„Fólk fer að lifa með þessu. Og lífsgæði fólks minnka, það líður engum vel að búa með ástvini í slíkum aðstæðum. En maður lætur það viðgangast því maður heldur að maður geti ekki gert neitt, en það er ekki reyndin.

Raunin er sú að fólk getur farið út úr þessu sjúka mynstri og leitað sér hjálpar þótt það sé ekki hægt að tala virka alkóhólistann til. Alkóhólismi er sjúkdómur sem tekur yfir allt.

Alkóhólistinn tekur vímuefnið fram yfir allt. Sterkustu öfl láta undan fyrir vímuefninu, skyldur og skuldbindingar , jafnvel móðurástin víkur fyrir vímuefninu. Og þegar viðkomandi er orðinn fíkill og sýnir öll einkenni þess að vera alkóhólisti þá munu hlutirnir bara versna. Þótt það virðist stundum eins og hlutirnir séu að skána þá versna þeir alltaf til lengri tíma, nema það sé leitað eftir hjálp. Og það er aldrei of seint að leita sér hjálpar. Aldrei.”