Fara í efni
05. mars 2021
Greinar

Mótun ungmennameðferðar SÁÁ

Katrín Ella Jónsdóttir, sálfræðingur og Júlía Aspelund, lýðheilsufræðingur og verkefnastjóri hjá SÁÁ, vinna að mótun og breytingum á ungmennameðferð samtakanna. Þær segja Akkilesarhæl ungmennanna helst vera hugarfarið um að þau séu óstöðvandi og ósigrandi. Þannig ofmeti þau oftar en ekki getu sína og vanmeti vandann.

Megin stefið í ungmennameðferðinni er að valdefla ungmennin þannig að þau komist sem fyrst út í samfélagið og geti tekið þar virkan þátt í námi og starfi.

Ýmsar breytingar hafa verið gerðar á meðferðinni t.a.m. að skipta út sloppum fyrir peysu sem ungmennin klæðast á meðan meðferð stendur. Með þessu er reynt að forðast hlutverk sjúklingsins og láta ungmennin átta sig á að þau þurfi að bera ábyrgð á sínu bataferli.

Þær segja það sé margséð með þennan sjúkdóm að enginn geti sagt viðkomandi hvað hann eða hún eigi að gera heldur verði einstaklingurinn að finna út hvað virki best fyrir sig og engin ein leið sé rétt.

Hvatvísari og meiri fallhætta

„Þessa dagna leiði ég vinnu við að búa til nýja meðferðardagskrá sem er sniðin betur að þörfum þessa aldurshóps. Fyrir það fyrsta þarf að hafa í huga að heilinn verður einfaldlega ekki fullþroska fyrr en 25 ára. Þarfir ungmennanna eru líka aðrar en fullorðinna og þau eru að fást við aðra hluti í daglegu lífi. Við reynum að hafa hugfast að þau geta verið hvatvísari og eiga erfiðara með að sjá neikvæðar afleiðingar af hegðun sinni. Þau eru því oft í meiri fallhættu og virkilega mikilvægt að gera þau meðvituð um sína eigin getu og gefa þeim tól til að fúnkera í daglegu lífi. Við höfum því búið til fræðsluefni sem nýtist þeim þegar heim kemur því þau fara ekki endilega öll í eftirmeðferð. Við byggjum fyrirlestrana meira á samtali og gerum ýmis verkefni sem hvetja þau til umhugsunar. Við skiptum síðan hópnum upp í grúppur og ræðum efni dagsins þannig að námsefnið nái að stimplast vel inn,“ segir Katrín.

Júlía er sérhæfð í aðferð er kallast áhugahvetjandi samtal og segir hana reynast mjög vel fyrir yngsta hópinn.

„Áhugahvetjandi samtal er mjög hvetjandi og opin leið til að tala við fólk um breytingar. Það reynist vel að fá ungmennin til að velta fyrir sér hvað sé að virka fyrir þau og hvað ekki og hverju þau vilja halda áfram. Aðferðin er líka þvert á þær aðferðir er miða frekar að því að segja fólki fyrir verkum eða ganga á fólk. Það er jú eðli ungs fólks að sýna mótþróa og gera öfugt við það sem ætlast er til af þeim svo aðferðin stemmir vel við þennan aldurshóp,“ segir Júlía.

Krefjandi starf en mjög gefandi

Katrín lauk meistaranámi í klínískri sálfræði árið 2016 og hefur unnið hjá SÁÁ síðan við mótun ungmennameðferðar.

„Ég var ráðin inn í ómótað starf við að veita þessum ungmennum meiri þjónusta sem dregið hafði nokkuð úr í kjölfar hrunsins. Maðurinn minn vann áður á ungmennadeildinni sem sálfræðingur svo ég vissi að hverju ég gekk og hafði kynnst umhverfinu. Þetta er krefjandi starf en á sama tíma ótrúlega gefandi sérstaklega að taka á móti krökkunum í U hópnum sem eru þau sem koma til okkar í eftirfylgni. Þessir krakkar vilja virkilega ná góðum árangri og gaman að sjá hvað þeim vegnar vel. Ég vinn líka inni í fjölskyldudeildinni og þar vorum við að byrja með nýtt námskeið fyrir foreldra ungmenna í neyslu sem ég og Þóra sálfræðingur þróuðum. Námskeiðið snýr að því hvernig foreldrar geta stutt við börnin sín í mjög erfiðum aðstæðum sem þessum. Þá reynum við að kenna þeim leiðir til að setja mörk og gæta þess að vera ekki með ógagnlegan stuðning heldur frekar að láta ungmennin taka ábyrgð,“ segir Katrín.

Júlía bætir við að það sé eðlilegt að foreldrar verði hræddir og grípi þá til að skamma ungmennin. Þetta vindi síðan upp á sig þannig að samskiptin verði oft á tíðum mjög slæm og ákveðinn vítahringur skapist. Það gagnist vel að fræða foreldra um sjúkdóminn og þann heim sem honum fylgi og eins að útskýra hugmyndafræði áhugahvetjandi samtals.

Ólíkur reynsluheimur kynjanna

Nú hefur verið aukið við aðstöðuna á Vogi þannig að ungmennameðferðin er kynjaskipt og bæði sér gangar fyrir kynin og sér setustofur. Það segja þær skila sér í meiri einbeitingu meðal ungmennana og auðveldrara sé fyrir þau að tjá sig um viðkvæm málefni í kynjaskiptum grúppum.

„Með þessu er t.d. minna um að fólk sé að setja upp fjaðrirnar, sem getur truflað svolítið, en er auðvitað alveg eðlilegt á þessum aldri. Það er því okkar að skapa umhverfi þar sem ungmennin geta einbeitt sér algjörlega að verkefninu framundan,“ segir Katrín Ella og Júlía bætir við að kynjaskiptir umræðuhópar skipti öllu máli því reynsluheimurinn sé oft mjög ólíkur eftir kynjum í neyslu.

Það er vissulega ákveðið afrek að enginn biðlisti er fyrir ungmenni hjá SÁÁ og haft samband við alla um hæl eftir að beiðni berst. Þær segja miklar sveiflur í fjölda innlagna eftir árgöngum en frá 2018 hafi fjöldi ungmenna sem leiti til SÁÁ dregist verulega saman. Svo virðist sem forvarnarátak sem farið var í um aldamótin sé farið að skila verulega góðum árangri í dag.Dregið hafi úr drykkju og fólk sé orðið meðvitaðra um þátt félagsstarfa í því að draga úr neyslu ungmenna. Á hinn bóginn hafi rannsóknir sýnt að vandi þeirra sem neyti vímuefna sé þó alvarlegri en áður og það samræmist því sem þær sjá á Vogi. Sterkari efni séu á markaðnum og algengara að ungt fólk sé að sprauta sig í dag. Þá sé neyslan orðin mun blandaðri og víðfemari í dag en áður og ungmenni farin að neyta fleiri eiturlyfja en þó ekki endilega að drekka áfengi.

Aukin meðferð í eftirfylgni

Framundan í ungmennameðferð SÁÁ er að styrkja og efla U hópinn sem hittist í Efstaleitinu og hafa hann tvisvar sinnum í viku. Auk félagsskapar er einnig markmiðið að bæta við aukinni fræðslu og meðferðarvinnu en ungmennin hafa sjálf kallað eftir meiri sjálfsvinnu sem kemur þeim til góða í daglegu lífi

„Þeim finnst gott að geta komið í húsið og sækja í traustið sem þarna myndast. Okkar sýn er að þessi hópur sé meira eins og eftirmeðferð þar sem þau geta mætt hvenær sem er og fengið þann stuðning og tól og tæki sem þau þarfnast,“ segir Júlía.

Þá er framtíðardraumurinn einnig sá að vera með sér ungmennameðferð á Vík fyrir þau ungmenni sem þurfa lengri meðferð. Kostu væri að geta haft þau meira aðskilin og meðferðin snúi meira að þeirra þörfum.

Hafi foreldrar grun um neysluvanda hjá sínu barni er hægt að byrja á að panta viðtal hjá ráðgjafa eingöngu fyrir foreldra til að viðra áhyggjur sínar. Í framhaldinu er hægt að bjóða ungmenninu að koma og ræða í trúnaði við ráðgjafa og sjá hvort frekari aðgerða sé þörf.