Fara í efni
06. september 2016
Greinar

SÁÁ gat af sér valdeflingu íslenskra vímuefnasjúklinga

Ein leið til að bera saman stöðu vímuefnasjúkra á Íslandi og í öðrum löndum er að skoða fjölda funda á vegum tólf spora samtaka á einstökum svæðum. Þá sést stærð og virkni þess samfélags á hverjum stað sem er að vinna að því að halda sér frá sjúklegri neyslu vímuefna. Á Reykjavíkursvæðinu eru um 200 tólf spora fundir í boði í hverri viku fyrir áfengis- og vímuefnasjúka en í borgum af svipaðri stærð á Norðurlöndunum eru kannski tíu fundir á hverjum stað í viku. Þessi staða og sú mikla valdefling íslenskra vímuefnasjúklinga sem hefur átt sér stað undanfarna áratugi er bein afleiðing af starfi SÁÁ. Erlendis vantar vímuefnasjúklinga víðast hvar þessa valdeflingu sem kom með SÁÁ inn í íslenskt samfélag, segir Erla Björg Sigurðardóttir, félagsráðgjafi hjá Reykjavíkurborg, sem situr einnig í framkvæmdastjórn SÁÁ og er hér í viðtali sem tekið er fyrir saa.is. “Ég veit ekki hvar í heiminum þessi hópur hefur svipaða stöðu, nema kannski á stöku svæðum í Bandaríkjunum,” segir Erla Björg.

Erla Björg hefur unnið að málefnum vímuefnasjúkra sem félagsráðgjafi og innan SÁÁ frá því á níunda áratugnum. Í umræðum um málefni vímuefnaneytenda hér á landi síðustu misseri hefur því heyrst fleygt, m.a. af hendi fagfólks, að staða þeirra sem eru í sjúklegri vímuefnaneyslu sé verri hér á landi en í nágrannalöndunum. Erla Björg var spurð hvort það væri svo að valdefling íslenskra vímuefnasjúklinga næði aðeins til aðgengis að heilbrigðisþjónustunni og hvort staðan væri önnur og lakari gagnvart félagslega kerfinu en í nágrannalöndunum?

Með tilkomu SÁÁ 1977 breyttust aðstæður vímuefnasjúkra mikið og það á við um alla hópa vímuefnasjúkra, segir Erla Björg. Aðgengi að meðferð jóks umtalsvert og einstaklingar sem áttu við gífurlegan vímuefnavanda að etja hættu neyslu og minnkuðu þannig skaða fyrir sjálfa sig, fjölskydu og samfélagið. Reynsla af starfi SÁÁ hefur sannfært almenning um að vímuefnasýki er meðhöndlanleg og viðhorf gagnvart þeim sem fara í meðferð jákvæðari. Fordómar hafa minnkað og eru að mínu mati mun minni en t.d. í Noregi þar sem ég hef búið samtals í 7 ár.

Meðferðarkerfið í Noregi er mun umfangsminna og möguleikarnir á að komast í meðferð minni en hér á landi. Mín upplifun af því að búa í Noregi er að fordómarnir þar eru meiri og öll viðhörf önnur þó að þar hafi vímuefnameðferð verið sett undir heilbrigðiskerfið. Þar er t.d. mun betra að vera þunglyndur en að vera alkóhólisti eða fíkill. Hér á landi höfum við náð að þjónusta þennan hóp í miklum mæli á þeim grundvelli að um sjúkdóm sé að ræða sem sé sérstæður og meðhöndlanlegur og að fólk þurfi stuðning til að geta viðhaldið bata. Munurinn á okkur og þeim er einfaldlega sá að við höfum SÁÁ en Norðmenn ekki. Þessi staða og sú mikla valdefling íslenskra vímuefnasjúklinga sem hefur átt sér stað undanfarna áratugi er bein afleiðing af starfi SÁÁ. Erlendis vantar vímuefnasjúklinga víðast hvar þessa valdeflingu sem kom með SÁÁ inn í íslenskt samfélag. Ég veit ekki hvar í heiminum vímuefnasjúkir hafa eins góða stöðu og hér, nema kannski á stöku svæðum í Bandaríkjunum.

Við getum mælt þessa stöðu út frá umfangi 12 spora samtaka. Ef við skoðum hana þá eru um 200 12 spora fundir á viku í Reykjavík. Í Bergen og Þrándheimi, sem eru borgir á stærð við Reykjavík, er kannski hægt að fara á 10 fundi á viku. Bara með því að horfa á þetta getum við séð hver er árangurinn hér á landi og á hvorum staðnum er að finna hópa sem eru virkir í því að halda sér frá efnunum og auka þannig lífsgæði sín. Rannsóknir frá USA sýna að fylgni er á milli þess að stunda 12 spora fundi og langtíma edrúmennsku sem eykur lífsgæði.

Til að mæla árangur af meðferðarstarfi almennt varðandi bata fólks og minnkun skaða af völdum ofneyslu vímuefna þarf að gera vísindalegar rannsóknir. Einnig er hægt að skoða tölfræði til lengri tíma litið til að sjá þróun í minnkun eða aukningu á skaða vegna ofneyslu vímuefna.

Fjölþættur félagslegur vandi

Einstaklingar með vímuefnasýki búa við mismunadi félagslega stöðu og finnast á öllum stigum samfélagsins. Engu að síður eru sömu megin einkennin hjá þeim sem er mikilvægt að halda til haga þ.e. stjórnleysi í neyslu og afneitun. Í tilfelli þar sem um fjölþættan og langvarandi félagslegan vanda er að ræða er erfitt að fanga vanda fólksins sjálfs. Stjórnleysið í lífi þessara einstaklinga er þvílíkt að það er mjög erfitt að þjónusta þá. Félagsráðgjöfum er ætlað að mæta einstaklingnum þar sem hann er staddur. Grundvöllur félagsráðgjafar byggir á því og ég nálgast þetta mál sem félagsráðgjafi með langa reynslu af félagsþjónustu. Það er mjög mikilvægt að mæta fólki þar sem það er statt og það gerum við. En grundvöllur félagsráðgjafar byggir líka á því að aðstoða fólk við að gera breytingar.

Ég tel ekki að það sé hlutverk félagsráðgjafa að viðhalda óbreyttu ástandi hjá einstaklingi sem er t.d. háður því að sprauta vímuefnum í æð; nema þá að verið væri að tala um líknandi meðferð. Til að mæta þörfum þeirra sem eiga við fjölþættan vanda vegna vímuefnaneyslu hvort sem viðkomandi sprautar efninu í æð eða tekur það í gegnum meltingarveginn þarf fjölþætta þjónustu. Það þarf að vera meira samspil milli félagsþjónustunnar og heilbrigðiskerfisins – bæði meðferðaraðila og heilsugæslunnar. Á því sviði mættum við gera miklu betur. Ég tel að okkur skorti samtal og aukið fjármagn til að geta mætt þörfum slíkra einstaklinga þar sem þeir eru staddir.

Samfélagið hefur sett á laggirnar fjölmörg úrræði til að mæta þörfum einstaklinga í mikilli vímuefnaneyslu. Miðað við umræðuna í dag er markmið sumra þeirra úrræða það að vera með skaðaminnkandi nálgun án þess að stefna að útgönguleið út úr ástandinu með áætlun um breytingar. Það tel ég aldrei geta verið grundvöll félagsráðgjafar. Í fræðum um skaðaminnkandi nálgun kemur fram að hún er hugsuð í víðu samhengi þ.e. minnkun skaða beinist ekki eingöngu að þeim sem er í ofneyslu vímuefna, heldur einnig fjölskyldu hans eða hennar og samfélaginu öllu. Áherslur skaðaminnkunnar eru að ekki er gengið út frá því að einstaklingur í ofneyslu hætti neyslunni a.m.k. í fyrstu.

Það er grundvallað á þeirri hugmynd að mögulegt sé að viðkomandi breyti hegðun sinni til að minnka afleiðingar neyslunnar. Áherslan er á að veita þjónustu eins og t.d. fjárhagsaðstoð, aðstoð vegna húnsæðisvanda og heilsufars án þess að gera kröfu um að viðkomandi hætti neyslu. Slíkt er viðhaft á Íslandi bæði frá sveitarfélagi, ríki og þriðja geiranum sem reka meðferð fyrir þennan hóp þó að hann mæti oft á tíðum hindrunum í leit að aðstoð.

Við vitum að skaðsemi neyslunnar birtist á geðrænan hátt, líkamlegan hátt og félagslegan hátt og oft mikið vonleysi. Við þurfum að vinna með alla þessa hætti og þar held ég að samtalið skorti um hvernig hægt er að hjálpa þessum einstaklingum til að breyta sínu lífi. Við vitum líka að einn meginþáttur þessa sjúkdóms er afneitun á stöðu mála. Ef við horfum ekki á þann þátt þá erum við líka að vinna af þekkingarleysi gagnvart þessu fólki. Það er afneitunin sem kemur í veg fyrir að viðkomandi átti sig á því hvar hann er staddur. Auðvitað kostar það pening og tíma að vinna með afneitun og ég veit til þess að félagsráðgjafar hafa unnið ágætisvinnu hvað það varðar og fólk hefur komist út úr vanda en við mættum gera betur. Ég held að þennan þátt vanti inn í umræðu um skaðaminnkandi nálgun.

Samstarf félagsþjónustu og heilbrigðiskerfis

Hvernig er hægt að vinna að því að bæta samstarf milli heilbrigðisþjónustu við vímuefnasjúklinga, eins og þá sem SÁÁ veitir, og félagsþjónustunnar?

Hafandi unnið að málefnum vímuefnasjúkra frá því á níunda áratugnum og verandi félagsráðgjafi og sitjandi í framkvæmdastjórn SÁÁ þá veit ég að SÁÁ og Reykjavíkurborg hafa átt samvinnu með sér frá upphafi. Á árum áður rak til dæmis Reykjavíkurborg sérstaka fjölskyldudeild í samvinnu við SÁÁ og borgin greiddi fyrir starfsmann og aðstöðu til að sú starfsemi gæti farið fram. Reykjavíkurborg hefur verið með samninga við SÁÁ um ráðgjöf bæði hvað varðar barnavernd og notendur félagsráðgjafar í félagsþjónustu og það eru enn slíkir samningar í gildi og samtal þarna á milli. Mörg sveitarfélög hafa greitt götu einstaklinga til að fá þjónustu SÁÁ og koma þannig að málefnum einstaklinga með vímuefnasýki.

En í stóra samhenginu mætti gera betur og þétta samvinnuna þannig að við séum á sömu blaðsíðu varðadi það hverjar þarfirnar eru og hvernig við mætum þeim þörfum. Það sýnist nefnilega sitt hverjum. Reykjavíkurborg er stórt sveitarfélag, þar eru fimm þjónustumiðstöðvar, og þar er fjölbreyttur hópur fagfólks sem starfar með notendum. Oft á tíðum er kannski frá einum stað til annars mismunandi sýn á þennan vanda og hvernig á að leysa hann og ég held að það sé kannski ákveðið vandamál. Einnig getur það verið kostur ef tekin er umræða sem leiðir af sér bestu lausn. Hugmyndirnar skarast stundum á um það hvernig eigi að leysa þennan vanda. Sama á við víða í heilbrigðiskerfinu og það er þekkt alls staðar, ekki bara þegar kemur að þessum vanda, að heilbrigðiskerfið og félagsþjónustan vinna ekki saman.

En það er líka alveg skýrt að borgin hefur lagt mikið af mörkum til þessara mála til að mynda varði borgin árið 2015 rúmar 450 milljónir króna í málefni einstaklinga með áfengis- og annan vímuefnavanda. Borgin vill standa sig vel gagnvart öllum notendum velferðarþjónustunnar sem er meginmarkmið starfseminnar. Reykjavíkurborg rekur sérstakt starfsendurhæfingar úrræði fyrir vímuefnasjúka með fjölþættan langvarandi félagslegan vanda og er hluti að starfseminni í smvinnu við SÁÁ. Þetta úrræði grundvallast á því að notendur komist út úr áþján vímuefnaneyslu og að auka lífsgæði til lengri tíma.

En aftur að muninum á stöðu vímuefnaneytenda og þá einkum vímuefnasjúklinga hér á landi og í nágrannalöndunum. Því er haldið fram, t.d. fyrir nokkrum vikum af félagsráðgjafa í fréttaskýringarviðtali í Ríkisútvarpinu, að Íslendingar séu eftirbátar nágrannalanda okkar hvað varðar stöðu vímuefnasjúklinga og þá einkum þeirra sem sprauta sig? Er það rétt og hvernig mundi það birtast okkur hér þar sem þessi hópur hefur greiðan aðgang að margvíslegri heilbrigðisþjónustu og meðferð og langtímastuðningi, bæði með sérstöku búsetuúrræði og viðhaldsmeðferð. Hér hafa á hinn bóginn t.d. birst nýlega fréttir af Íslendingum sem falla í vímuefnaneyslu í Noregi og leita fljótlega til sveitarfélaga og missa forsjá barna sinna. Slík stimplun gagnvart vímuefnaneytendum er löngu liðin tíð á Íslandi.

Ég átta mig alls ekki á því, hvað er það er sem svona slæmt hjá okkur. Ég mundi að vísu vilja sjá að það væri meiri orku, tíma og peningum varið í það að fylgja fólki eftir. Ágæt heilbrigðisþjónusta er ekki að duga fólki vegna þess að félagslegur vandi þess er svo mikill og það er hann sem bíður fólks þegar heilbrigðisþjónustunni sleppir. Það sem skortir er markvissari samvinna milli aðila sem koma að málefnum þessa fólks eins og ég hef komið inn á. Það mætti læra af Norðmönnum með sumt t.d. er gert ráð fyrir í lögum að unnið sé markvisst með einstaklingum með vímuefnavanda út frá einstaklingsáætlunum og að þeim sé fylgt eftir. Gert er ráð fyrir að einstaklingar fái aðstoð við að vinna sig frá vandnum og verði færir um að sjá sjálfum sér farborða eftir því sem við á. Þetta á ekki við á Íslandi, en aðgengi að meðferð er mun minna í Noregi og annað andrúmsloft í þjóðfélaginu almennt en hér gagnvart þessum vanda.

SÁÁ hefur þjónustað sérstaklega það fólk sem sprautar sig með vímuefnum og við erum með heilbrigðiskerfi sem grípur þann hóp og þar held ég að hafi verið unnin ágætis vinna á mörgum sviðum. Ég veit ekki betur en apótekin afhendi fríar sprautunálar og svo er Frú Ragnheiður, bíll Rauða krossins, á ferðinni um borgina á ákveðnum tímum og hefur verið í nokkur ár

Borgin vinnur samkvæmt stefnu í málum utangarðsfólks fyrir árin 2014 til 2018 og mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar. Þar er það ávarpað að stærsti hluti þeirra einstaklinga sem teljast utangarð í Reykjavík eigi við áfengis- og annan vímuefnavanda að etja og geðfötlun. Þar segir einnig að það megi rekja geðraskanir til neyslu vímuefna. Þá er það ávarpað að vandi þessa einstaklinga sé fjölþættur heilbrigðisvandi sem hefur í för með sér alvarlegar félagslegar afleiðingar. Í stefnunni er fjallað um fyrsta, annars og þriðja stigs forvarnir og ávarpað að efla þurfi þrija stigs forvörn í málefnum einstaklinga sem búa í sértækum búsetuúrræðum. Borgin rekur annars vegar blaut úrærði sem svo eru kölluð þar sem þess er ekki krafist að fólk hætti neyslu og hins vegar áfangaheimili þar sem krafist er að viðkomandi hætti neyslu.

Úrræði á vegum Reykjavíkurborgar fyrir þennan hóp eru byggð upp á þeim forsendum að mæta þörfum þeirra og bæta lífsgæði. Miklum fjármunum er veitt í slík úrræði og þörfin er mikil. Auðvitað er það þannig að getuleysið til að breyta er gríðarlegt hjá einstaklingum í slíkri stöðu en félagsráðgjafi hlýtur alltaf að vinna þannig að hann horfi í þá átt að viðkomandi eigi betra líf. Og ég get ekki séð að það sé rétt að vinna með einstaklingi sem á við stórfelldan vímuefnavanda að stríða sem bitnar þannig á honum að hann er heimilislaus út frá því að viðhalda óbreyttu ástandi. Það er þar sem vandinn liggur, það er stjórnleysið í lífi þessa fólks sem skapar það að félagslegu aðstæðurnar eru erfiðar og þetta er mjög erfitt viðfangs.

Það mætti mæta þessu með markvissari hætti en gert er í dag og efla þar með þriðja stigs forvörn. Byggja má brú á milli blautra úrræða og áfangaheimila með þrepaskiptri aðstoð. Skapa þannig markvisst að fólk hafi útgönguleið eigi alltaf möguleika á að komast í bata og losna undan áþján fíknarinnar, því ég vil kalla þetta áþján. Þetta er ekki neitt val. Ég trúi því ekki að neinn velji að lifa við þessar aðstæður. En þá þarf að taka mið af því hvers eðlis vandinn er og mikilvægi þess að stöðva neyslu og þar er afneitunin grundvallarþáttur sem þarf að vinna með. Það þarf að vera uppbyggilegt starf inni í þessum úrræðum þar sem viðkomandi er fyrst og fremst að sinna sínum meginþörfum og auka lífsgæði sín. Það kostar peninga og tíma og aukinn mannafla. Slík vinna krefst þess að meðferðaraðilar og félagsþjónusta vinni þétt og markvisst saman að þjónustukeðju í samvinnu við alla þá aðila sem koma að málum hvers einstaklings hverju sinni til einstaklingurinn valdeflist, geti séð sér sjálfum forboða og átt gott líf.

viðtal: PG