Fara í efni
17. nóvember 2020
Greinar

Styrkir trúna á eigin getu til breytinga

Júlía útskrifaðist úr meistaranámi vorið 2019 og fluttist þá til Íslands og hóf störf á Vogi. Sem verkefnastjóri metur hún og tryggir gæði starfsins m.a. með því að skoða niðurstöður kannana og sjá hvað skili árangri og hvað megi betur fara. Þá er Júlía sérhæfð í aðferð er kallast áhugahvetjandi samtal.

„Áhugahvetjandi samtal er mjög hvetjandi og opin leið til að tala við fólk um breytingar. Hún snýst um að finna þær ástæður sem viðkomandi hefur til breytinga og leiðir til að styrkja trú á eigin getu til að þær megi verða. Mér finnst þetta þægileg og ánægjuleg leið til að nálgast fólk af virðingu og dæma það ekki fyrir það sem það gerir. Þetta er mikilvægt því fólk er ekkert endilega að gera eitthvað sem það er ánægt með eins og t.a.m. að neyta vímuefna. Eins er skömmin oft mikil og með aðferðinni má líka létta á henni,” segir Júlía.

Aðferðin er snýst um áhugahvetjandi samtal er viðurkennd í meðferðarstarfi víða um heim og er þvert á þær aðferðir er miða frekar að því að segja fólki fyrir verkum eða ganga á fólk. Júlía segir mikilvægt að meðferðarstarf staðni ekki og sé í takt við tíman og fræðin sem séu sífellt að breytast og reglulega sýni rannsóknir enn betur hvað virki og hvað ekki. Hún brenni fyrir að starfsfólkið geri sitt besta og líði vel í starfi. Rannsóknir hafi sýnt fram á að áhugahvetjandi samtal beri góðan árangur fyrir fólk á öllum aldri og hafi reynst nytsamlegt tól til að nálgast sjúklinga á jafningjagrundvelli.

Júlía lauk nýverið námskeiði hjá MINT (Motivational Interviewing Network of Trainers) alþjóðlegum samtökum sem í eru um 3.000 meðlimir. Með námskeiðinu hlaut hún réttindi til að þjálfa aðra í aðferðinni og vinnur nú að því að innleiða hana í meira mæli en áður í meðferðastarfið

„Framundan er að þjálfa fleiri og auka færni í þessu hérlendis en í dag erum við þrjú sem höfum sérhæft okkur í áhugahvetjandi samtalsmeðferð og aðferðin því nokkuð ný hérlendis. Það er mjög góð tilfinning að geta nýtt aðferðina þegar í starfinu og gaman að geta stigið inn í þetta verkefni og þróað starfið áfram með aðferðum sem maður lærði aðeins nokkrum vikum fyrr,” segir Júlía.

Júlía segir starfið bæði gefandi og hvetjandi og í mörg horn sé að líta. Tekið sé á móti eins mörgum sjúklingum og kostur er og heimsfaraldur dragi ekki úr fólki að leita sér lækning. En kannanir meðal þeirra sjúklinga sem komið hafa í meðferð síðastliðna mánuði hafi sýnt að neysla hafi aukist í einhverjum mæli og algengt að bakslag hafi orðið í bata fólks.

Talið berst að unga fólkinu okkur og áhyggjum foreldra af unglingum í því eirðarleysi sem getur skapast í aðstæðum sem þessum. Júlía segir að víða erlendis hafi verið horft til Íslenska módelsins í forvarnarstarfi. Megin stef þess er að börn stundi reglulega tómstundir og íþróttir og þegar slíkt sé ekki í boði þurfi að hlúa enn betur að unga fólkinu okkar. Hún bendir á að síðastliðin ár hafi dregið úr fjölda ungmenna í meðferð en að sama skapi séu þau lengra leidd og neyti sterkari efna.