Starfsfólk SÁÁ kynnti starf sitt á alþjóðlegum samráðsfundi í Osló
Ásdís, fagstjóri hjúkrunar hjá SÁÁ og Tita, hjúkrunarfræðingur í LOF-teyminu, fóru nýverið fyrir hönd SÁÁ tóku nýverið þátt í alþjóðlegum samráðsfundi um skaðaminnkun sem haldinn var í Osló.
Á fundinum komu saman sérfræðingar og fagfólk frá löndum víðs vegar að, meðal annars Ástralíu, Kanada, Englandi, Noregi, Svíþjóð, Finnlandi, Skotlandi, Danmörku og Bandaríkjunum, til að ræða nýjustu rannsóknir, áskoranir og lausnir á sviði skaðaminnkunar og meðferðar við ópíóðafíkn.
Meðal framsögumanna voru Professor Sir John Strang, Dr. Arne Kristian Skulberg og Professor Paul Dietze, sem kynntu nýjar rannsóknir og aðferðir tengdar meðferð og forvörnum gegn ópíóðafíkn.
„Það var ótrúlega áhugavert að heyra hvað önnur lönd eru að glíma við í þessum málaflokki og jafnframt hve vel við stöndum okkur á Íslandi,“ segir Ásdís.
„Við erum með gott aðgengi að meðferð, lágan þröskuld og öfluga þjónustu. Í mörgum löndum er erfitt að fá naloxone, það þarf að borga fyrir það eða skrá það út á nafni, hér er það einfalt og aðgengilegt. Það er mikill styrkur.“
Ráðstefnan var vettvangur til að kynna starf SÁÁ og LOF-meðferðina og ræða við samstarfsaðila um afeitrun á göngudeild og nýjungar í meðferðarúrræðum.
Þær Ásdís og Tita hittu einnig fulltrúa frá svipaðri stofnun í Finnlandi, sem vinnur með niðurtröppun og afeitrun og vonast til að það samstarf verði styrkt áfram.
„Ferðin styrkti okkur í þeirri trú að við séum að vinna mikilvægt og faglegt starf,“ segir Tita.
„Það er hvetjandi að sjá hvernig samstarf við aðra fagaðila gengur og að við erum í raun á háu stigi miðað við mörg önnur lönd. Þetta var líka góð áminning um að við getum deilt okkar þekkingu út á við og lært jafnframt af öðrum.“
Á ráðstefnunni var einnig fjallað um nýja ópíóða sem eru að skapa aukin vandamál erlendis og um mikilvægi fyrstu viðbragða við ofskömmtun.
„Það sem mér þótti áhugaverðast,“ segir Tita, „var að þegar fólk hefur ofskammtað og er hætt að anda, þarf fyrst og fremst að veita súrefni til heilans. Það er aðeins frábrugðið því sem kennt er við hjartaáfall, þetta eru smáatriði sem skipta miklu máli í raunverulegum aðstæðum.“
Báðar lýsa þær ferðinni sem upplýsandi, áhugaverðri og gefandi.
„Við komum heim með innblástur, hvatningu og staðfestingu á því hvað við erum að gera frábæra hluti á Íslandi,“ segja þær samhljóma.
„Við erum stoltar af því sem við stöndum fyrir og hlökkum til að miðla því áfram.“

Tita Valle Sullano hjúkrunarfræðingur í LOF teyminu og Ásdís Margrét Finnbogadóttir fagstjóri hjúkrunar hjá SÁÁ