Fara í efni

Ungmennameðferð

Meðferð fyrir ungmenni yngri en 25 ára

Enginn biðlisti fyrir ungmenni

Sjúkrahúsið Vogur hefur annað eftirspurn fyrir ungmenni undir 25 ára, þau fara ekki á biðlista. Skortur er á heilbrigðisþjónustu annars staðar fyrir ólögráða sem stundum þurfa meira en býðst hjá SÁÁ. Ungmenni fá oftast innlögn á sjúkrahúsið Vog innan tveggja vikna og kemur innlagnarbeiðni frá einstaklingum, aðstandendum, heilbrigðisstarfsfólki eða barnaverndaryfirvöldum. Þegar ungmenni mætir til innlagnar lætur það vita af sér hjá móttökuritara á Vogi. Eftir smá bið kemur sjúkraliði og tekur á móti sjúkling. Sjúkraliði tekur móttökuviðtal og fer yfir farangur viðkomandi og tekur lyf og önnur verðmæti og kemur þeim fyrir á viðeigandi geymslustaði. Því næst tekur læknir móttökuviðtal og leggur mat á líkamlega og andlega heilsu og gefur fyrirmæli um gát og lyfjagjafir. Innlögn er yfirleitt 7-10 dagar eða eftir aðstæðum. Áhersla er lögð á samvinnu og mikilvægt að ungmennum líði vel og vilji koma aftur ef á þarf að halda. Einstaklingur getur yfirgefið ungmennadeildina ef hann óskar og er þá alltaf haft samráð við vakthafandi lækni og forráðamenn eða aðstandendur ef ungmenni er ólögráða. Hægt er að óska eftir fjölskylduviðtali fyrir útskrift hjá þeim sem eru ólögráða.

Sinna þarf fjölþættum vanda

Fyrstu dagana þarf oftast afeitrun með lyfjum og sinna þarf bæði líkamlegri heilsu og geðheilsu. Ef ungmenni kemur undir áhrifum þarf að fylgjast náið með hegðun og einkennum um ofskammta, síðan fráhvarfseinkennum og fylgikvillum, og meðhöndla það. Stöku sinnum þarf dvöl á sérstakri hjúkrunargát í upphafi. Sum ungmenni, koma úr miklum félagslegum vanda auk vímuefnaneyslunnar. Innlögn á Vog er hvorki upphaf né endir á þeirri stöðu, þótt verkefnið sé að bæta hana. Þau hafa mörg hver dottið af vinnumarkaði eða ekki getað stundað nám. Sum hver verið í mikilli áhættuhegðun, hegðunarvanda og afbrotum og verið í umsjá barnaverndaryfirvalda og lögreglu. Mörg hver hafa lent í heilbrigðiskerfinu og því oft mikill aðsteðjandi vandi. Allt kapp er lagt á að tryggja öryggi þeirra og fá þau til samstarfs. Umgjörð ungmennameðferðarinnar og sérmeðferðardagskrá eru þar mikilvæg. Allt starfsfólk sjúkrahússins sinnir ungmennum daglega, þ.e.a.s. læknar, hjúkrunarfræðingar og sjúkraliðar, en sérstaklega sálfræðingur og ráðgjafar deildarinnar.

Sérstök dagskrá miðuð að þörfum ungmenna

Ungmenni sem koma á Vog fara í sérstaka ungmennameðferð þar sem reynt er að koma betur til móts við þarfir ungmenna. Sérstök fyrirlestradagskrá er fyrir ungmenni og meira um verkefni. Ungmenni fá að auki að fara út í göngu daglega og hafa aðgang að sérstakri setustofu þar sem aðgangur er að spilum, pússlum og öðru, ásamt því að þau fá aðgang að sjónvarpi á kvöldin til að stytta sér stundir. Í ungmennameðferðinni er dagskrá alla daga, fræðsluerindi, hópmeðferð, samvera, verkefni og einstaklingsviðtöl. Ungmennameðferðin er að mestu kynjaskipt. Ungir menn eru með herbergi á ungmennagangi og ungar konur á kvennagangi. Hópfundir eru kynjaskiptir en fyrirlestrar sameiginlegir. Sérstakar setustofur fyrir ungmenni eru einnig kynjaskiptar. Ungmennameðferðinni er stýrt af teymi fagfólks. Þar starfa áfengis- og vímuefnaráðgjafar, sálfræðingur, lýðheilsufræðingur og læknir. Hjúkrunarvakt er einnig til staðar allan sólarhringinn.

Heildstæð þjónusta

Eftir útskrift á Vogi stendur ungmennum til boða áframhaldandi 28 daga inniliggjandi eftirmeðferð á Vík, Kjalarnesi. Meðferðin á Vík er kynjaskipt.

Mikil þjónusta er fyrir ungmenni og aðstandendur þeirra í göngudeildum SÁÁ. Boðið er upp á foreldrafærninámskeið og stuðning fyrir aðstandendur í göngudeild. Umönnunaraðilar geta einnig sótt einstaklingsviðtöl hjá fjölskylduráðgjöfum SÁÁ í göngudeild. Auk þessa er starfræktur U-hópur sem er vikulegur opinn meðferðarhópur með ráðgjafa og sálfræðingi fyrir ungt fólk með fíknsjúkdóm. Hópurinn hittist á miðvikudögum kl. 17.00 í Von, Efstaleiti 7.

Sálfræðiþjónusta barna er sérhæft inngrip í göngudeild SÁÁ fyrir börn sem eru aðstandendur (systkini, eða eiga foreldri með fíknsjúkdóm).